Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Takast á fyrir sveitarstjórnarkosningar á Austurlandi

Mynd: RÚV / RÚV
Kosið verður til sveitarstjórnar í nýju sveitarfélagi á Austurlandi á laugardaginn. Sveitarfélagið varð til við sameiningu Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar. Ellefu verða í sveitarstjórn í Múlaþingi sem er það nafn sem flestir íbúar kusu í sumar á sveitarfélagið.

Rætt verður við fulltrúa fimm framboðslista í kosningunum í sérstökum umræðuþætti Spegilsins í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 18. Anna Kristín Jónsdóttir og Rúnar Snær Reynisson hafa umsjón með þættinum í hljóðveri RÚV á Egilsstöðum.

Þar eru Stefán Bogi Sveinsson oddviti Framsóknarflokks, Gauti Jóhannesson oddviti Sjálfstæðisflokksins, Hildur Þórisdóttir oddviti Austurlistans, Þröstur Jónsson oddviti Miðflokksins og Jódís Skúladóttir oddviti Vinstri grænna.

Auk sveitarstjórnarinnar sjálfrar á að velja fulltrúa í svokallaðar heimastjórnir í þessu víðfeðma sveitarfélagi sem nær eins og fyrr sagði alveg frá Djúpavogi í suðri norður á Borgarfjörð Eystra, niður á Seyðisfjörð og inn að Jökulsá á Fjöllum og Vatnajökli. Í kjöri til heimastjórnar eru allir íbúar á viðkomandi svæði, líka þeir sem eru á framboðslistum til sveitarstjórnar.

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV