
Suga nýr forsætisráðherra Japans
Ekki er búist við miklum breytingum á ríkisstjórn landsins en áætlað er að Suga tilkynni formlega samsetningu hennar síðdegis. Upplýsingum um væntanlega stjórn Suga var lekið til japanskra fjölmiðla í dag.
Helstu breytingarnar eru þær að bróðir Shinzo Abes, Nobue Kishi, tekur við sem varnarmálaráðherra og leysir þar með Taro Kono af hólmi. Konum í stjórninni fækkar um eina, úr þremur í tvær. Dómsmálaráðherrann og ráðherra Ólympíumála verða konur.
Sérfræðingar í málefnum Japans telja líklegt að Suga fylgi stefnu forvera síns í jafnt í innanríkismálum sem milliríkjamálum. Abe lagði ríka áherslu á að halda góðu sambandi við Bandaríkin en samskipti við Kína gætu orðið þrautaganga.
Japönsk stjórnvöld hafa viljað þétta böndin við nágrannann stóra en útbreiðsla kórónuveirufaraldursins og atferli Kínastjórnar í Hong Kong gætu orðið til trafala.
Shinzo Abe verður þingmaður áfram og hvetur til almenns stuðnings við arftaka sinn á þeim erfiðu tímum sem framundan eru.
Fréttin var uppfærð kl. 5:37.