Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Stjörnurnar ætla að sniðganga samfélagsmiðla

Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Stórstjörnur á borð við Kim Kardashian ætla hvorki að setja inn færslur á Instagram né Facebook á miðvikudaginn. Ætlunin er að þrýsta á þessa öflugu samfélagsmiðla að bregðast við hatursorðræðu og dreifingu rangra eða villandi upplýsinga.

Kim Kardashian er með 188 milljón fylgjendur á Instagram. Hún segist ekki geta setið þögul hjá meðan þessir samfélagsmiðlar, sem eru í sömu eigu, leyfa útbreiðslu rangra upplýsinga, áróðurs og haturs.

Hún segir slíkt renna undan rifjum hópa sem vilji kljúfa samstöðu Bandaríkjamanna og valda upplausn. Leonardo DiCaprio, Sacha Baron Cohen, Katy Perry og Michael B. Jordan eru meðal þess frægðarfólks sem tekur undir með Kardashian.

Átakið kemur úr smiðju samtaka sem ganga undir heitinu „Stop Hate for Profit“ og kalla eftir hugarfarsbreytingum á Facebook. Fyrr á árinu hlýddu mörg stórfyrirtæki ákalli samtakanna um að auglýsa ekki á samfélagsmiðlinum.

Aðgerðasinnar, ríkisstjórnir og fyrirtæki af ýmsum stærðum hafa lengi þrýst á stjórnendur Facebook að bregðast ákveðnar við hegðun af því tagi sem stjörnurnar ætla að mótmæla með 24 tíma þögn á morgun.

Fyrirtækið bendir á að það hafi lokað aðgöngum öfgasinnaðra samtaka og sé í óðaönn að búa sig undir að stemma stigu við flóði rangra upplýsinga í aðdraganda forsetakosninganna vestra í nóvember.