Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Segir miðstjórn ASÍ misnotaða til sátta við Icelandair

16.09.2020 - 17:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og miðstjórnarmaður í ASÍ, segir að verið sé að misnota miðstjórn samtakanna með því að sættast við Icelandair Group. Miðstjórn ASÍ fundaði tvisvar í dag um sátt milli ASÍ og flugfélagsins.

Drífa Snædal staðfestir að viðræður hafi verið í gangi milli ASÍ og flugfélagsins um að sættast. Engin yfirlýsing hefur verið samþykkt og engar ákvarðanir teknar. Miðstjórn ASÍ kom saman til aukafundar klukkan átta í morgun og stóð sá fundur í klukkustund. Miðstjórnin kom svo saman á skipulögðum fundi klukkan hálf eitt. Sá fundur stóð til klukkan þrjú í dag.

Í drögum af yfirlýsingunni, sem ekki hefur verið birt en Kjarninn segir frá í dag, átti að tilkynna að ASÍ og Icelandair Group ljúki deilum sínum um kjör flugfreyja sem Icelandair sagði upp í sumar. Félagið sagði nær öllum flugfreyjum sínum upp þegar ekki náðust kjarasamningar milli Flugfreyjufélags Íslands og flugfélagsins hjá Ríkissáttasemjara. Icelandair ætlaði svo að semja við annað stéttarfélag flugfreyja en sögðu ekki hvaða félag það átti að vera.

ASÍ fordæmdi aðferðir Icelandair í sumar og sagði félagið sýna starfsmönnum sínum fullkomna lítilsvirðingu. „Þetta verður ekki látið viðgangast,“ sagði Drífa í júlí. Uppsagnirnar sagði hún jafngilda ólöglegu verkbanni og að aðgerðum Icelandair hafi verið ætlað að hafa áhrif á afstöðu flugfreyja.

Í ágúst undirbjó ASÍ mál fyrir félagsdómi gegn Samtökum atvinnulífsins, sem sátu við samningaborðið fyrir hönd Icelandair.

En nú kveður við annan tón. Sólveig Anna skrifar á Facebook nú síðdegis að hún hafi ætlað að leggja fram tillögu að ályktun á boðuðum miðstjórnarfundi í dag. Hún hafi sent tillöguna á miðstjórnina í gær áður en boðað var til aukafundarins í morgun.

Hlutafjárútboð Icelandair Group hófst í morgun og það stendur fram eftir degi á morgun. Nokkur óvissa er um þátttöku lífeyrissjóða í útboðinu.

Í tillögu Sólveigar Önnu, sem hún lét ekki greiða atkvæði um í dag, segir að það sé „afar einkennilegt að stórfyrirtæki sem hefur fótum troðið grunnréttindi launafólks og farið á svig við landslög gangi nú á biðlsbuxum um stuðning frá íslenska ríkinu og eftirlaunasjóðum launafólks“. Sólveig segist enn vera þessarar skoðunar, þó miðstjórnin hafi ekki verið það.