Leggja til að Ísland fari af rauðum lista í Noregi

16.09.2020 - 08:46
Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráðið
Sóttvarnayfirvöld í Noregi lögðu það til í gær við norsk yfirvöld að taka Ísland af rauðum lista og færa yfir á gulan ásamt Liechtenstein og Póllandi. Verði tillagan samþykkt þurfa þeir sem koma frá þessum löndum til Noregs ekki að fara í sóttkví.

Norðmenn settu Ísland á rauðan lista vegna ferðalaga, ásamt fimm öðrum löndum, 12. ágúst, og skilgreindu sem hááhættusvæði vegna COVID-19. Síðan þá hafa þeir sem koma til Noregs frá Íslandi þurft að fara í tíu daga sóttkví við komuna til landsins.

Tillagan nú er rökstudd með því að nýgengi smita á Íslandi sé 15,8 að meðtalinni landamæraskimun, í Póllandi sé það einnig dvínandi, 19,2 á hverja hundrað þúsund íbúa og í Liechtenstein sé það 7,8. 

Þá er lagt til að setja Eistland á rauðan lista en leggja af sóttkví fyrir þá sem koma af ákveðnum svæðum í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi þar sem nýgengi hefur dvínað mest, svo sem Blekinge, Sjálandi og Norður-Jótlandi.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi