Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Lætur reyna á brottvísunina fyrir dómi

Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Magnús Norðdahl, lögmaður Kehdr-fjölskyldunnar frá Egyptalandi sem vísað var úr landi nú fyrir klukkan átta segir að látið verði reyna á brottvísun þeirra fyrir dómi. Hann gagnrýnir ummæli sviðsstjóra Útlendingastofnunar í Kastljósi í gær, stofnunin hefði vel getað vísað fjölskyldunni fyrr úr landi.

Magnús  segir að lögregla hafi átt að sækja fjölskylduna á heimili þeirra á Ásbrú klukkan hálfsex í morgun og að þau hafi átt að fljúga héðan til Amsterdam og þaðan til Kaíró í Egyptalandi. Hann gagnrýnir ummæli sviðsstjóra Útlendingastofnunar í Kastljósi í gær og segir að með þeim sé verið að reyna að skella skuldinni á fjölskylduna.

„Þar sem hann fer með rangt mál að mínum dómi. Og vísar til þess að það hafi verið fjölskyldunni að kenna að þau voru ekki flutt úr landi með vísan í vegabréf þeirra sem þau hafi ekki viljað endurnýja. Hið rétta er að vegabréf tveggja þessara barna runnu út 28. janúar, úrskuðrur kærunefndar útlendingamála var kveðinn upp 14. nóvember og birtur fjölskyldunni 18. nóvember þar sem þau fengu 30 daga til að yfirgefa landið. Það voru þau ekki búin að gera 30 dögum síðar , 18. desember og frá þeim degi og fram til 28. janúar voru vegabréf fjölskyldunnar gild. Á þeim tíma hefði Útlendingastofnun getað staðið að því, að koma fjölskyldunni úr landi. Það var ekki gert. Þannig að ég tel það mjög ódýrt hjá sviðstjóra Útlendingastofnunar að benda á fjölskylduna í þessu samhengi,“ segir Magnús.

Sjá einnig: Segir brottvísun hafa tafist vegna útrunnina vegabréfa

Kærunefnd Útlendingamála á eftir að taka afstöðu til tveggja endurupptökubeiðna og Magnús segir að nú sé þess beðið að nefndin taki afstöðu til endurupptökubeiðnanna. Spurður hvort fjölskyldan eigi þess kost að koma hingað aftur á grundvelli dvalarleyfis segir hann að allir geti sótt um slíkt leyfi.  „En það er auðvitað mjög þröngt að komast í gegnum það gat sem slíkt umsóknarferli er. Sérstaklega þegar atvinnustigið í landinu er eins og það er núna.“

Magnús segist hafa búist við að ákvörðunin um brottvísun fjölskyldunnar yrði endurskoðuð. „ Það var klukkan sex í gær sem ég missti móðinn og upplifði að mér þætti fokið í öll skjól í þessu máli. Ég trúði því fram á síðustu stundu að þetta myndi ekki verða.“