Hádegisfréttir: Ekki fleiri smit í rúman mánuð

16.09.2020 - 12:10
Þrettán greindust með COVID-19 innanlands í gær. Ekki hafa fleiri greinst á einum degi í nærri einn og hálfan mánuð. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að í flestum tilfellum sé fólkið ekki tengt. Það geti bent til þess að dreifing á veirunni innanlands sé meiri en talið var.

Hádegisfréttir verða sagðar klukkan 12:20.

Sex manna barnafjölskylda frá Egyptalandi fannst ekki þegar átti að fylgja henni úr landi í morgun. Ekki er vitað um dvalarstað fólksins. Tvær beiðnir um endurupptöku brottvísunarinnar eru á borði Kærunefndar útlendingamála. 

Staðfest kórónuveirusmit á heimsvísu nálgast hratt 30 milljónir. Ríflega fimm milljónir hafa greinst með veiruna á Indlandi.

Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins lagði til að dregið yrði meira úr losun gróðurhúsalofttegund og lýsti yfir áhyggjum af deilum Grikkja og Tyrkja, í fyrstu stefnuræðu sinni í morgun. Hún varaði einnig stjórnvöld í Lundúnum við því að breyta einhliða útgöngusamningi Breta úr sambandinu. 

Sláturfélag Suðurlands hefur lækkað afurðaverð nautgripa til bænda um allt að 9,5 prósent. Rætt verður við formann Landssambands kúabænda í hádegisfréttum, um hvað þetta þýðir fyrir bændur. 

Tekist var á um skipulagsmál og hvar umferð eigi að liggja í gegnum Egilsstaði á opnum fundi fimm framboða í nýju sveitarfélagi á Austurlandi í gærkvöld. Oddvitar mætast í Speglinum í kvöld.

Degi íslenskrar náttúru hefur verið fagnað á afmælisdegi Ómars Ragnarssonar í áratug. Ómar er áttræður í dag. Ný heimildarmynd um hann verður frumsýnd í kvöld.

Frettir's picture
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi