800 flugferðir bókaðar með nýjum afslætti

16.09.2020 - 14:48
Mynd með færslu
 Mynd: Loftbrú - RÚV/grafík
Nærri átta hundruð flugferðir hafa verið bókaðar með Loftbrú frá því að hún var tekin í notkun fyrir viku. Á einni viku hefur ríkið því niðurgreitt fargjöld um tæplega fimm milljónir króna.

Fólk sem býr á landsbyggðinni, fjarri Reykjavík, getur fengið 40 prósenta afslátt á flugferðum innan Íslands hjá Loftbrú. Afslátturinn gildir fyrir sex flugferðir á ári, það eru þrjár ferðir til Reykjavíkur og aftur til baka.

Allir geta fengið afsláttinn sem búa á Vestfjörðum, á hluta af Norðurlandi vestra, á Norðurlandi eystra, á Austurlandi og í Hornafirði. Líka allir sem búa í Vestmannaeyjum af því að þaðan er bara hægt að komast með flugvél eða skipi.

Þessi afsláttur kemur sér vel fyrir fólk sem þarf að sækja ýmsa þjónustu til Reykjavíkur, til dæmis að fara til læknis. Ungt fólk af landsbyggðinni, sem er í framhaldsskóla í Reykjavík og býr þar tímabundið, getur sótt um afslátt í Loftbrú. Það á líka við um börn sem eiga foreldra eða forráðamenn úti á landi. Þau geta fengið afslátt hjá Loftbrú til að vera með foreldrum sínum.

Á loftbru.is er hægt að fá meiri upplýsingar um Loftbrú og hægt er að sækja um afsláttinn á https://loftbru.island.is/.

annathr's picture
Anna Sigríður Þráinsdóttir
málfarsráðunautur
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi