Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

48% innflutningstollar á íslenskan kísilmálm

16.09.2020 - 10:04
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Allt að 48% innflutningstollar verða mögulega lagðir á íslenskan kísilmálm í Bandaríkjunum. Rannsóknarnefnd bandaríska viðskiptaráðuneytisins skoðaði undirverðlagningu á innfluttum kísilmálmi á Bandaríkjamarkaði í sumar.

Viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna ætlar að leggja til að 28-48% innflutningstollar verði lagðir á íslenskan kísilmálm. Rannsókn á innflutningi kísilmálms frá fjórum löndum, og hugsanlegri undirverðlagningu á Bandaríkjamarkaði, lauk í síðasta mánuði en gögn málsins voru nýlega birt. Fréttablaðið greindi frá.

Telja löndin njóta samkeppnisforskots

Tollarnir eiga við kísilmálm frá Íslandi, Kasakstan, Bosníu-Hersegóvínu og Malasíu. Innflutningstollar á kísilmálm frá Bosníu og Malasíu verða frá 12-21%. Tollarnir á íslenska málminn verða því þónokkuð hærri. 

„Að sögn Ferroglobe og Mississ­ippi Silicon, sem samanlagt stýra meira en helmingi allrar kísilmálmframleiðslu í Bandaríkjunum, njóta framleiðendur landanna fjögurra ósanngjarns samkeppnisforskots. Því er náð fram með því að selja kísilmálm á niðursettu verði í krafti niðurgreiðslna við framleiðslu (e. dumping). Var því haldið fram að innflutningsverð á málmi frá löndunum fjórum væri á bilinu 54-85 prósentum lægra en eðlilegt gæti talist,“ segir í Fréttablaðinu. 

Umkvartanir réttlætanlegar

Í sumar var því óskað eftir því að innflutningstollar yrðu lagðir á kísilmálm frá löndunum. Rannsóknarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að málmur PCC væri á pari við bandaríska málminn og umkvartanir bandarísku framleiðendanna því réttlætanlegar. Ríflega fjórðungur framleiðslunnar á Bakka hefur farið til Bandaríkjanna. Um 8.900 tonn voru flutt frá Íslandi til Bandaríkjanna á árunum 2017-2019, nánast allt frá PCC á Bakka.

PCC lokaði í júní vegna rekstrarörðuleika. Þá koma fram að kórónuveirufaraldurinn hafi raskað heimsmarkaði kísilmálms, verð hafi lækkað mjög og dregið úr eftirspurn. Áttatíu manns var sagt upp en félagið segir lokunina tímabundna og gert er ráð fyrir að endurráða starfsfólk þegar framleiðsla hefst að nýju. Í fyrra þurfti félagið að leita allt að fimm milljarða króna fjármögnun til að styrkja reksturinn. Ekki náðist í Rúnar Sigurpálsson, forstjóra PCC, við vinnslu fréttarinnar. 

Fréttin hefur verið uppfærð. Upphaflega stóð að tollarnir yrðu lagðir á íslenskan kísilmálm, en ekki að viðskiptaráðuneytið ætlaði að leggja það til.