Sverrir í umspil meistaradeildarinnar en Albert úr leik

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Sverrir í umspil meistaradeildarinnar en Albert úr leik

15.09.2020 - 20:41
Landsliðsmiðvörðurinn Sverrir Ingi Ingason komst í kvöld í umspil meistaradeildar Evrópu í fótbolta með liði sínu PAOK frá Grikklandi. Annar landsliðsmaður, Albert Guðmundsson, féll hins vegar úr leik í forkeppninni með liði sínu AZ Alkmaar frá Hollandi.

Sverrir lék allan leikinn og fær góða dóma fyrir frammistöðu sína í vörn PAOK sem vann óvæntan sigur á Benfica frá Portúgal, 2-0. PAOK mætir rússneska liðinu Krasnodar í umspili um að komast í riðlakeppni meistaradeildarinnar.

Albert Guðmundsson var í byrjunarliði AZ Alkmaar sem tapaði 2-0 fyrir Dynamo Kyiv frá Úkraínu en Alberti var skipt af velli á 58. mínútu í stöðunni 1-0. Dynamo mætir belgíska liðinu Gent í umspilinu.

Gent komst áfram í umspilið í kvöld með 2-1 sigri á Rapid Vín frá Austurríki.

Aðeins er leikinn einn leggur í forkeppninni en í umspilinu mætast liðin heima og að heiman, 22. september til 30. september.

Forkeppninni lýkur annað kvöld.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Sverrir Ingi tvöfaldur meistari

Fótbolti

Sverrir Ingi seldur fyrir hálfan milljarð