Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Sóttvarnalæknir útlistar þá þætti sem tillögur byggja á

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnadeild ríkislögregl
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir telur að núverandi fyrirkomulag um sóttvarnaaðgerðir, eins og sóttvarnalög segja fyrir um, tryggi best fagleg viðbrögð vegna COVID-19. Í nýju minnisblaði hans til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra reifar hann þá þætti sem tillögur og ákvarðanir hans um sóttvarnir vegna COVID-19 byggja á.

Í minnisblaðinu segir að ýmsa þætti þurfi að vega og meta þegar grípa þurfi til ráðstafana vegna COVID-19. Sumir séu mælanlegir en á aðra þurfi að leggja huglægt mat „enda margt enn á huldu varðandi veiruna SARS-CoV-2 og sjúkdóminn COVID-19“.

Almennt megi þó segja að ef hörðum sóttvarnaráðstöfunum sé beitt á landamærum sé hægt að slaka á ráðstöfunum innanlands, og öfugt. 

Faraldsfræði, skimun og alvarleiki mikilvægir þættir

Í minnisblaðinu segir að meðal þeirra þátta sem sóttvarnalæknir taki til greina sé faraldsfræði sjúkdómsins innanlands og erlendis, til dæmis hvernig útbreiðslan er á hverjum tíma og líkur á að útbreiðslan breytist. „Líkurnar á því að veiran (SARS-CoV-19) berist hingað til lands eru einkum háðar útbreiðslu hennar erlendis, fjölda einstaklinga sem ferðast hingað til lands, frá hvaða löndum/svæðum þeir koma og hversu líklegir þeir eru að bera með sér smit.“

Þá metur sóttvarnalæknir hversu víðtæk almenn skimun í samfélaginu er og hversu stór hluti prófa greinir smit. Alvarleiki sjúkdómsins kemur líka inn í ákvarðanatöku, bæði hversu margir eru lagðir inn á sjúkrahús og líkur á alvarlegum langtímafylgikvillum. Þá þarf að taka inn í reikninginn getu heilbrigðiskerfisins til að annast COVID-sýkt fólk og huga að áhrifum þess að smit kunni að berast inn á sjúkrahús og á heilbrigðisstofnanir. 

Meta reynslu af fyrri ráðstöfunum

Í minnisblaðinu segir einnig að eiginleikar veirunnar skipti máli við ákvarðanatöku, til dæmis hversu smitandi hún er. Þá þurfi að skoða þær sóttvarnaráðstafanir sem þegar eru í gildi og hafa verið í gildi og meta reynsluna af fyrri ráðstöfunum.

Einnig þurfi að huga að samfélagslegum áhrifum og trúverðugleika ráðstafana. „Hverjar eru líkurnar á samvinnu við almenning um þær aðgerðir sem til greina koma? Hver er trúverðugleiki þeirra út frá fyrri aðgerðum og reynslu? Einstaklingsbundnar sóttvarnarráðstafanirnar munu alltaf vera lykilatriði og því skiptir samfélagsleg umræða miklu er horft er til væntanlegs árangurs af aðgerðum. Ætíð skal hins vegar stefnt að því að þær ráðstafanir sem gripið er til séu rökréttar og í takti við tilefnið.“