Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Smáspekileg tengsl heimspeki og hönnunar

Mynd: Minisophy / Minisophy

Smáspekileg tengsl heimspeki og hönnunar

15.09.2020 - 09:45

Höfundar

Ólöf Gerður Sigfúsdóttir ætlar að rýna í sjónmenningu í Víðsjá í vetur. Hún byrjaði á að fjalla um Smáspeki (Minisophy) sem er afsprengi Sigríðar Þorgeirsdóttur og Katrínar Ólínu Pétursdóttur. Verkefnið efnisgerist í ýmsum myndum vefsíðu og smáforriti, auk þess sem samfélagsmiðlar eru notaðir á virkan hátt.

Hugsaðu um stund: Að fá innblástur merkir bókstaflega að vera innblásinn anda. Þegar við erum innblásin þá fáum við hugmynd sem kemur til okkar. Við getum ekki skipað hugmynd að koma en við getum búið í haginn fyrir komu hennar. Því hugmyndir eru frjálsar eins og sagt er.

Ólöf Gerður Sigfúsdóttir skrifar: 

Smáspeki, eða Minisophy, er afsprengi samvinnu heimspekingsins Sigríðar Þorgeirsdóttur og hönnuðarins Katrínar Ólínu Pétursdóttur. Smáspeki er frískandi blanda fræða, lista, hönnunar og tækni, og hefur það markmið að þróa aðferðafræði smáspekilegrar hugsunar fyrir alla. Nýttar eru aðferðir heimspekilegrar hugsunar annarsvegar og hönnunarhugsunar hinsvegar, til að veita hinu smáa í hversdeginum athygli, til dæmis hvernig við öndum, hlustum, hugum að grjótinu í fjörunni eða plöntunum í umhverfi okkar. 
Verkefnið efnisgerist í þremur ólíkum formum: sýningu, vefsíðu og smáforriti, auk þess sem samfélagsmiðlar eru notaðir á virkan hátt.

Sýningin, sem fór fram í Ásmundarsal á dögunum og mætti kannski frekar kalla verkefnarými eða tilraunastofu, var einungis eitt stak í stærra mengi hugmyndafræðarinnar um heimspeki hversdagsins. Þá tengist sýningin stærra rannsóknarverkefni um líkamlega gagnrýna hugsun, sem Sigríður stýrir við heimspekideild Háskóla Íslands (ect.hi.is). Kenningarnar eru sóttar eru annarsvegar smiðju í pragmatisma, þá grein heimspekinnar sem skoðar hvernig við umgöngumst heiminn og okkur sjálf, og hinsvegar í smiðju fyrirbærafræðinnar, þá grein sem skoðar hvernig við upplifum heiminn og okkur í honum. Ekki svo ólíkt hlutverki hönnunar, sem fæst við að þróa og skapa nýji hluti, ferla og kerfi sem gera okkur kleift að tengjast umhverfinu og fyrirbærunum í því, okkur sjálfum og hvert öðru. Þess vegna virkar þetta samtal þeirra Sigríðar og Katrínar Ólínu svo vel. 

Sú blanda abstrakt hugsunar og myndmáls, sem smáspekin byggir á, skapar áhugaverðan heim sem vekur forvitni og óvænt hugrenningatengsl, hvort sem er á sýningunni, vefsíðunni eða í appinu. Þær Sigríður og Katrín Ólína hafa hér þróað nýja aðferð sem snýst um að skapa hugvekjandi kveikjur, krækjur og farvegi fyrir hugsanagang, sem hjálpa áhorfandanum að skynja eigin hugsanir og veru í heiminum, að finna fyrir brautunum sem tengja okkur sjálf við tímann og rýmið sem við stöndum í hverju sinni. Þannig er áhorfandinn hvattur til að ögra sjálfum sér, kasta af sér óttablandinni virðingu fyrir vísindum og sækja í eigin rann til að fílósófera, eða mínísófera um allt og hvaðeina, án þess að hafa hlotið til þess sérstaka heimspekilega eða listfræðilega þjálfun. Það var því vel til fundið að finna sýningunni stað í Ásmundarsal, sem þangað til fyrir stuttu hýsti listasafn Alþýðusambands Íslands, og var stofnað í því markmiði að færa listina til fólksins í landinu.

Myndefni sýningarinnar samanstóð af samtíningi úr óravíddum Internetsins, sem stækkað hafði verið upp og prentað á einhverskonar plastefni í ýmsum stærðarhlutföllum og samsetningum, svo það minnti helst á risavaxnar dúkkulísur. Verkin voru ýmist tvívíð uppi á vegg eða þrívíð eins og skúlptúrar á miðju gólfi. Þetta gerði það að verkum að maður skynjaði verkin í samhengi við eigin líkama og notaði öll skynfærin, ekki bara augun. 

Þegar ég gekk inn í Ásmundarsal blasti við mynd- og orðheimur, sem var í senn kunnuglegur og framandi. Stundum jafnvel ankannalegur. Þarna sá ég hluti í álögum, samskeytta líkama, róbota, tegundasamruna, hluti sem framkölluðu einhverskonar töfra fyrir tilstilli þeirrar fagurfræðlegu umgjarðar sem verkefninu hefur verið búið. Þarna voru fyrirbæri úr dýraríkinu, steinaríkinu, plönturíkinu, listmunir, manngerðir munir og nytjahlutir.

Sýningin minnti þannig á furðustofur Endurreisnarinnar, eða wunderkammer, þar sem öllu ægði saman og var stillt upp í einskonar skipulagðri óreiðu, til lærdóms og rannsókna fyrir þann sem horfði á. Sýningargripirnir ávörpuðu mig á skemmtilegan og glettinn hátt. Þeir rugluðu mig í ríminu, glefsuðu og potuðu í huga minn, og ráku mig áfram í könnunarleiðangur um eigin hugskot og fantasíur. Hugur minn varð samstundis leitandi, fálmandi, þreifandi, leikandi, skapandi. 

Fagurfræði sýningarinnar, og reyndar myndmáls alls verkefnisins með þeim grafísku útfærslum sem einkenna það, skapar tengingar við vísindaskáldskap eða súrrealisma. Svipmyndir af grískum gyðjum, úfnum sjó og dramatísku landslagi, sem skeytt er saman við rómversk súlnagöng, minna á málverk Giorgio de Chirico frá byrjun 20. aldar, sem einmitt eru unnin út frá frumspekilegum forsendum og vekja til umhugsunar stöðu mannsins í samhengi við umhverfi sitt. 

Mynd með færslu
 Mynd: Smáspeki - Facebook/Smáspeki
Sigríður Þorgeirsdóttir og Katrín Ólína Pétursdóttir standa að smáspekinni.

 

Í gegnum alla þræði verkefnisins má skynja svo sterkt hvernig smáspekin gengur út frá því að öll fyrirbæri undir sólinni hafi heimspekilega vídd, sama hversu ómerkileg eða fábreytt þau kunna að virðast. Þessi nálgun er í raun ekki ný af nálinni. Hana má rekja til búddisma og Zen heimspeki, og birtist í þeirri þróun sem orðið hefur á undanförnum áratugum innan félags- og hugvísinda sem miðar að því að gefa líkamanum, tilfinningum og skynjun aukið vægi í rannsóknarferlinu sjálfu. Það sem hinsvegar er nýstárlegt við smáspekiverkefni þeirra Sigríðar og Katrínar Ólínu er hvernig þeirra þverfaglega samstarfi er háttað, í hvaða formi þær velja að miðla því og á hvaða vettvangi. 

Þegar kafað er ofan í verkefnið er augljóst að þær vilja ekki einungis víkka út mörk sinna fagsviða, heldur vilja þær einnig ná til fjöldans, til leikra jafnt sem lærðra. Smáspekinni er ætlað að örva alla, óháð stöðu, stétt, aldri eða bakgrunni, til að skynja, hugsa og tala heimspekilega. Þannig vilja þær riðla valdatengslum og opna á möguleika hvers og eins til að sækja í eigin reynslubrunn og gera persónulegri reynslu hátt undir höfði. Með verkefninu skapast þannig einskonar inngönguhlið að stórum hugmyndum og fyrirbærum, eins og tímanum, jarðtengingunni, hagkerfinu, stjórnun náttúruauðlinda, eða tækniþróun, með hjálp smáu hlutanna. Ég skynja þeirra hlutverk meira sem einskonar leiðara eða virkjendur, fremur en eiginlegra höfunda. Einnig finnst mér skýrt að verkefnið er liður í stærra rannsóknarferli, það er verkefni í vinnslu, þar sem leitunin, þreifingarnar og fálmið heldur áfram og lifir eftir að sýningartímanum er lokið. 

Sýningin, og þetta verkefni reyndar í heild, vekur einmitt upp spurningar um tengsl rannsókna við samfélagið, og um tengsl fræða og lista, heimspeki og hönnunar. Hvernig má ná út fyrir bergmálsklefann sem fræðasamfélagið er? Hvernig má sneiða hjá markaðshyggjunni sem einkennir hönnunarheiminn? Nær verkefnið til fjöldans eða er hér einungis verið að prédika fyrir kórinn? Hvaða umbreyting á sér stað í hugum okkar sem verðum að smáspekingum? Hvernig lærir maður að kveikja á gagnrýninni hugsun? Hvernig fáum við okkur til að hljóma í takt við smáspekina?

Ég hvet hlustendur til að heimsækja vefsíðu verkefnisins á minisophy.com (sem einnig er arkív þess), fylgja verkefninu á Facebook og Instagram, eða sækja sér Minisophy appið, þar sem læra má aðferðir smáspekilegrar hugsunar og halda má áfram að æfa sig þegar manni hentar. 

Taktu þér stund: Getur þú munað hvernig það var síðast þegar þú fékkst góða hugmynd? Hvernig voru aðstæður og hvernig gerðist það? Reyndu að að fría hugann, og allan líkamann líka, núna: stattu upp, líttu út um gluggann, farðu í göngutúr, og sjáðu hvað gerist.