Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Segir brottvísun hafa tafist vegna útrunnina vegabréfa

15.09.2020 - 20:31
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Þorsteinn Gunnarsson, sviðsstjóri hjá Útlendingastofnun, segir að hægt hefði verið að flytja egypska fjölskyldu úr landi í ársbyrjun, fyrir kórónuveirufaraldur. Til þess hefðu foreldrarnir þó þurft að sækja um framlengingu vegabréfa tveggja barnanna en ekki verið viljugir til þess. Þess vegna hefðu yfirvöld þurft að óska eftir nýjum vegabréfum frá egypskum yfirvöldum og það ferli hefði tekið marga mánuði.

Þetta sagði Þorsteinn í viðtali í Kastljósi í kvöld. Þar var fjallað um mál egypsku fjölskyldunnar sem flytja á úr landi á morgun. Gagnrýnt hefur verið að fjölskyldunni sé vísað á brott eftir langa veru á Íslandi þar sem börnin hafði aðlagast nýjum aðstæðum. Fjölskyldan sótti um hæli 7. ágúst 2018. Útlendingastofnun synjaði umsókninni 25. júlí í fyrra og kærunefnd staðfesti það 14. nóvember. Þá fékk fjölskyldan 30 daga frest til að yfirgefa landið. Það gerði fjölskyldan ekki og átti að flytja hana úr landi í febrúar. 

Viðtalið í heild

Þorsteinn sagði í Kastljósi að þegar í ljós kom að vegabréf tveggja barnanna væru að renna út hefðu tveir kostir verið í stöðunni. Annar var sá að foreldrarnir óskuðu eftir framlengingu vegabréfanna í Egyptalandi og sagði Þorsteinn að slíkt hefði tekið skamman tíma. Þetta hefðu foreldrarnir og lögmaður verið upplýst um en ekki viljað óska eftir framlengingu. Hinn kosturinn væri að íslensk yfirvöld óskuðu eftir því við egypsk stjórnvöld að þau gæfu út ný vegabréf. Það tæki hins vegar mun lengri tíma og í þessu tilfelli hefðu nýju vegabréfin borist í ágúst. 

„Við getum ekki þvingað fólk til þess að vinna með okkur,“ sagði Þorsteinn um það að foreldrarnir hefðu ekki óskað eftir framlengingu vegabréfa. Hann sagði að eftir endanlega niðurstöðu í málinu hefði fjölskyldan fengið tíma til sjálfviljugrar brottfarar og hún óskað eftir að fá réttaráhrifum frestað. Því hafi það ekki verið fyrr en í lok janúar sem íslensk stjórnvöld hefðu getað farið að vinna að brottvísun fjölskyldunnar úr landi og haft samband við egypsk stjórnvöld. Þorsteinn sagði að þegar um efnislega meðferð væri að ræða hefðu íslensk yfirvöld ekki samband við erlend stjórnvöld fyrr en niðurstaða væri fengin, meðal annars til að setja ekki í hættu þá sem tengjast umsækjanda um alþjóðlega vernd og býr enn í upprunalandi umsækjanda.

Leiðrétt 21:08 Fjölskyldan fékk réttaráhrifum ákvörðunar Útlendingastofnunar og kærunefndar ekki frestað, eins og sagði í upphaflegri gerð fréttarinnar.