Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

„Leið mjög illa og hélt ég þyrfti að leita skjóls“

15.09.2020 - 15:25
Mynd með færslu
 Mynd: Kveikur - RÚV
Kristján Þór Magnússon, sveitastjóri Norðurþings, segist hafa fundið vel fyrir skjálftanum sem varð skömmu fyrir þrjú í dag og reyndist vera 4,6 að stærð. Hann var staddur út í búð að kaupa sér jógúrt þegar skjálftinn varð. „Þetta er mesti skjálfti sem ég hef fundið hérna.“

Fram kemur á vef Veðurstofunnar að skjálftinn hafi orðið um 20 kílómetra norðvestur af Húsavík. Fjöldi tilkynninga hafi borist um að skjálftinn hafi fundist á Norðurlandi og að nokkrir eftirskjálftar hafi fylgt.

Kristján Þór segir að sér hafi liðið mjög illa þegar skjálftinn reið yfir og hann velti því fyrir sér hvort hann þyrfti hreinlega að leita skjóls. „Það hristist allt og skalf í búðinni en það datt ekkert og þetta gekk hratt yfir.“ 

Kristján segir kraftinn þó hafa verið það mikinn að hann hélt í hurðina á kælinum þar sem jógúrtið er geymt. „En þetta leið ótrúlega hratt og stóð bara yfir í örfáar sekúndur. Þetta var samt mjög óþægilegt.“

Starfsmenn á Síldarminjasafninu á Siglufirði fundu einnig vel fyrir skjálftanum og sögðu hann þann stærsta sem þeir hefðu fundið fyrir.

Einar Hjörleifsson, náttúruvásérfræðingur á Veðurstofu Íslands,  segir skjálftinn hafi fundist víða á Norðurlandi.  Hann bendir á að jarðskjálftahrina hafi verið í gangi í langan tíma á Tjörnesbrotabeltinu norðvestan við Gjögurtá en nú hafi þessi skjálftavirkni færst nær Húsavík því skjálftinn í dag varð á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu. „Það er ekki hægt að útiloka að það verði jafnvel stærri skjálfti þarna eða jafn stór,“ segir Einar.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV