Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hertar reglur á djamminu í Kaupmannahöfn

15.09.2020 - 19:39
Götumynd frá Kaupmannahöfn þar sem sést skilti þar sem fólk er hvatt til að halda fjarlægð
 Mynd: DR
Dönsk yfirvöld tilkynntu í dag um hertar reglur, sem sérstaklega er ætlað að minnka útbreiðslu kórónuveirunnar þegar fólk er úti að skemmta sér á stór-Kaupmannahafnarsvæðinu. 

Sjá einnig: Hertar reglur en fjöldi smita nær óbreyttur

Gripið er til þessa þar sem ekki þykir ganga nógu vel að halda samskiptafjarlægð þegar áfengi er haft um hönd. Ekki má hafa opið á veitingastöðum, börum, skemmtistöðum og kaffihúsum lengur en til klukkan tíu á kvöldin. Það sama gildir um brúðkaup og aðrar veislur, þær skulu ekki standa lengur en til tíu.

Lögregla ætlar að fylgjast sérstaklega vel með þar sem vaninn er að margt fólk komi saman. Þá verður fólki skylt að ganga með grímur alltaf þegar það stendur upp á veitinga- og skemmtistöðum. Magnus Heunicke, heilbrigðisráðherra Danmerkur, segir það vera til að minnka smithættu og stuðla að því að fólk virði samskiptafjarlægð. „Þetta þýðir að ekki má lengur drekka bjór standandi við bar. Maður verður að setjast og taka af sér grímuna,“ sagði ráðherrann á upplýsingafundi í dag.

Reglurnar gilda til mánaðamóta en átján sveitarfélög, þar á meðal Kaupmannahöfn og Óðinsvé, hafa búið við 50 manna samkomutakmarkanir í rúmlega viku. Nýjum smitum hefur fjölgað verulega í Danmörku á síðustu tveimur vikum. 347 ný smit greindust síðastliðinn sólarhring samanborið við tæplega hundrað í byrjun mánaðarins.