Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Fimm stormsveipir yfir Atlantshafi

15.09.2020 - 02:15
Erlent · Hamfarir · Veður
Mynd með færslu
 Mynd: NHS
Fimm stormsveipir eru nú á sveimi yfir Atlantshafi. Tveir þeirra eru fellibylir, tveir mælast hitabeltisstormar og svo fylgir einnig hitabeltislægð. Þetta er aðeins í annað sinn í sögunni sem fimm stormsveipir mælast á sama tíma yfir Atlantshafinu, síðast gerðist það í september árið 1971.

Fellibylurinn Paulette fór yfir Bermúda í gærmorgun og veldur enn usla þar þrátt fyrir að vera farinn þaðan. Hávaðarok og rigning bylur á eyjunni. Að sögn fréttastofu CNN er búist við því að Paulette verði enn kröftugri eftir því sem hún færist nær opnu Atlantshafinu, og gæti orðið annar fellibylurinn á tímabilinu til þess að mælast á fjórða eða fimmta stigi. Að meðaltali mælast þrír slíkir fellibyljir á ári. 

Fellibylurinn Sally leitar nú til norðvesturs í gegnum Mexíkóflóa og er reiknað með að hann nái landi við strendur Louisiana og Mississippi síðar í dag eða á morgun. Íbúar við sjávarsíðuna hafa verið varaðir við og beðnir um að yfirgefa heimili sín. 

Lægðin Rene hefur grynnkað talsvert á leið sinni yfir Atlantshafið. Hún var stormur en þegar komið var að miðbiki hafsins dró úr krafti hennar. Búist er við því að stormurinn Teddi, sem nú er yfir miðju Atlantshafi, verði kröftugri eftir því sem hann fer vestar og verði jafnvel fellibylur þegar hann fer yfir eyjar Karíbahafsins. 

Þá er stormurinn Vicky nýlagður af stað frá vesturströnd Afríku. Vicky er tuttugasti stormurinn sem hlýtur nafn á þessu stormsveipatímabili. Sá tuttugasti hefur aldrei komið jafn snemma. Fyrra met var sett af Tammy 5. október árið 2005.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV