Djokovic: Þetta var óviljaverk að sjálfsögðu

Mynd: EPA-EFE / ANSA POOL

Djokovic: Þetta var óviljaverk að sjálfsögðu

15.09.2020 - 20:00
Serbneski tenniskappinn Novak Djokovic hefur loks tjáð sig um brottvísunina á Opna bandaríska meistaramótinu fyrir helgi. Djokovic var þá dæmdur úr leik fyrir að slá boltanum í línudómara.

Djokovic, sem er efstur á heimslistanum, lét skapið hlaupa með sig í gönur í miðri viðureign sinni við Pablo Carreno Busta í 4. umferð Opna bandaríska meistaramótsins og sló í reiði sinni boltanum burt frá sér þannig að hann hæfði einn línudómara leiksins í hálsinn. Djokovic var þar með vísað úr keppni.

„Þetta var óviljaverk að sjálfsögðu. Ég ætlaði alls ekki að meiða hana en svona getur gerst og hefði getað gerst nokkrum sinnum áður á ferlinum. Ég veit að þetta hefði líka getað gerst oft fyrir aðra leikmenn. Þetta kemur því ekki alveg eins og þruma úr heiðskíru lofti ef svo má segja. Þetta er ekki alveg óþekkt í tennis og við eigum líklega eftir að sjá eitthvað svipað þessu gerast aftur á tennismótum í framtíðinni. Vonandi gerist það ekki oft og vonandi geri ég það ekki."

Djokovic segir tímann verða að leiða í ljós hvort hans verði minnst fyrir athæfið. „Ég er að sjálfsögðu ekki fullkominn og ég hef mína galla. Hvort þetta á eftir að festast í minni fólks veit ég ekki. Tíminn verður að leiða það í ljós.“

Tengdar fréttir

Tennis

Sögulegur sigur Thiem

Tennis

Djokovic vísað úr keppni fyrir að slá bolta í dómara