Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Barnaníð sem er miklu hræðilegra en fólk ímyndar sér

15.09.2020 - 09:11
Mynd: RÚV / RÚV
„Það er verið að nauðga börnum fyrir framan myndavélina og það er eftirspurn eftir þessu. Þess vegna er þetta gert,“ segir Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari. Í starfi sínu þarf hún oft að vinna í erfiðum málum og því er hún í miklu návígi við skuggalegustu hliðar tilverunnar. Hún segir þungbært að þurfa að að kynna sér og horfa á barnaníð til að ákvarða refsingu á vörslu þess, og hlýða á þolendur þess og aðstandendur lýsa skelfilegum afleiðingum.

Þessu og fleiru greinir Kolbrún frá í þættinum Okkar á milli sem hefur göngu sína aftur á RÚV í kvöld í umsjón Sigmars Guðmundssonar. „Við þurfum að skoða barnaníðsefni til að vita hvað við erum með í höndunum,“ segir hún. „Refsingin fer ekki bara eftir magni heldur líka grófleika. Þetta er okkar að skoða og sjá hvers lags efni um er að ræða,“ segir hún. Þorri fólks segir hún að átti sig ekki á því hvílík skelfing það er sem fólk festi á filmu og hvað sé gert við börnin í þessum myndskeiðum. „Þetta er bara viðbjóðslegt. Ég held að margir hafi mynd af því að þetta sé svona ljósblátt Lolitu-klám þar sem sjáist í brjóst en þetta er alls ekki svona. Þetta eru viðbjóðsleg brot sem verið er að fremja gegn mjög ungum börnum,“ segir Kolbrún. Og að hennar mati eru refsingar við vörslu á barnaníðsefni allt of vægar. „Þarna er um að ræða raunveruleg börn sem verið er að misnota einhvers staðar úti í heimi.“ Sumu af því sem hún hefur séð mun hún aldrei gleyma. „En maður þarf að geta sett það í ákveðið hólf. Ef maður gæti ekki gert það yrði maður að hætta.“

Að hlýða á framburð fórnarlamba slíkrar misnotkunar fyrir dómi sem segja frá afleiðingum brotanna segir hún þyngra en tárum taki. „Bæði þegar fólk kemur sjálft eða foreldrar ungra barna eða unglinga, sem hafa orðið fyrir svona kynferðisbrotum, lýsa því hvernig börnin þeirra hafa orðið litlir vængbrotnir fuglar,“ segir hún. „Þetta hefur svo gríðarleg áhrif á þolanda og alla hans fjölskyldu.“ Og stundum er erfitt að bíta á jaxlinn. „Ég hef þurft að berjast við tárin í skýrslutöku fyrir dómi. En ef þetta hætti alveg að hafa áhrif á mann ætti maður að pakka saman.“

Kolbrún greinir frá þessu í viðtali kvöldsins og segir meðal annars frá því hvernig hún nýtt eigin reynslu bæði til að hjálpa foreldrum sem misst hafa barn og til að berjast fyrir hagsmunum fatlaðra barna.    

Okkar á milli er á dagskrá RÚV klukkan 20:00 í kvöld og næstu þriðjudagskvöld þar sem Sigmar mun fá til sín góða gesti sem ræða við hann undir fjögur augu. Þættirnir verða brátt einnig aðgengilegir í fullri lengd í hlaðvarpsformi í spilara RÚV.