Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Atvinnuleysi 8,5 prósent – langmest á Suðurnesjum

15.09.2020 - 13:41
Mynd með færslu
Sveitarfélagið Vogar. Mynd úr safni. Mynd: Dagný Hulda Erlendsdóttir - RÚV
Atvinnuleysi mældist 8,5 prósent hér á landi í ágúst og jókst um 0,6 prósentustig á milli mánaða. Tæplega 18.000 manns voru án vinnu. Vinnumálastofnun spáir vaxandi atvinnuleysi á næstu mánuðum og að það verði komið upp í 9,3 prósent síðar í haust. 

Rúmlega þriðjungur þeirra sem eru án vinnu koma úr greinum tengdum ferðaþjónustunni. Þetta kemur fram í ágústskýrslu Vinnumálastofnunar.

Atvinnuleysi er langmest á Suðurnesjum, 16,9 prósent, og þar starfaði helmingur atvinnulausra áður í tengslum við ferðaþjónustu. Vinnumálastofnun spáir að atvinnuleysi á Suðurnesjum verði 17,5 prósent í september. 

Atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara er 19 prósent og 40 prósent þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá eru erlendir ríkisborgarar. Alls staðar nema á höfuðborgarsvæðinu er atvinnuleysi hærra meðal kvenna en karla.

Alls var 284 sagt upp í fjórum hópuppsögnum í ágúst og samtals hefur 8.000 manns hjá 114 fyrirtækjum verið sagt upp í hópuppsögnum frá því í mars.