Alvarlegt brot að birta nafn smitaðrar fótboltakonu

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson
Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur komist að þeirri niðurstöðu að þrír blaðamenn fótboltinet hafi brotið alvarlega gegn siðareglum félagsins með því að birta mynd af og nafngreina knattspyrnukonuna Andreu Rán Snæfeld Hauksdóttur í tengslum við frétt um kórónuveirusmit hjá knattspyrnuliði Breiðabliks. Andrea óskaði samdægurs eftir því að nafn hennar og mynd yrðu afmáð úr fréttinni en ekki var orðið við því.

Úrskurður siðanefndar birtist í dag.

Forsvarsmenn fotbolti.net töldu sig ekki hafa brotið siðareglur og kröfðust þess að kærunni yrði vísað frá þar sem málið hefði einnig verið kært til Persónuverndar. Því hafnaði siðanefndin og benti á að Persónuvernd væri stjórnvald.

Siðanefnd segir að nafn Andreu hafi verið birt í heimildarleysi ásamt mynd af henni. Megininntakið í fréttinni hafi verið að Íslandsmótið í knattspyrnu kynni að vera í uppnámi vegna þess að hún hefði greinst með kórónuveiruna. „Ekki verður séð að sérstök nauðsyn hafi borið til að upplýsa um nafn Andreu og birta mynd af henni í tengslum við fréttaflutninginn.“

Andrea lýsti því í viðtali við fréttastofu hvernig henni varð við þegar hún sá nafn sitt og mynd á fotbolta.net. „ Ég einhvern veginn missi gjörsamlega andann af því þarna er bara fullt nafn. Ég hef aldrei gert þetta áður en ég bara byrjaði að öskra og veina og tilfinningar fóru bara af stað sem ég hef aldrei áður fundið í  lífi mínu.“ 

 

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / Grímur Jón Sigurðsson
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi