Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Vísbendingar um líf á Venusi

14.09.2020 - 15:48
Mynd: RÚV/Þór Ægisson / RÚV/Þór Ægisson
Alþjóðlegur hópur stjörnufræðinga tilkynnti í dag um uppgötvun á sjaldgæfri sameind að nafni fosfín í skýjum reikistjörnunar Venusar. Ef þetta kemur frá örverum er þetta ein stærsta uppgötvun sögunnar, segir ritstjóri Stjörnufræðivefsins.

„Í dag var tilkynnt um uppgötvun á gastegund sem heitir forsfín. Á jörðinni verður þessi gastegund til annars vegar í iðnaði og hins vegar frá örverum. Og það er mjög ólíklegt að stórtækur iðnaður sé á Venusi í dag vegna þess að yfirborðshitastig þar er um það bil 500 stig,“ segir Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins. 

Uppgötvunin var kynnt í dag og hefur vakið umtalsverða athygli í erlendum miðlum. 

„Þetta er alveg brjálæðislega spennandi uppgötvun því þetta er stærsta stjörnulíffræðilega uppgötvunin sem við höfum gert hingað til. Við höfum hingað til beint sjónum okkar í leit að lífi að Mars en eiginlega aldrei fókusað á okkar næsta nágrenni sem er Venus. En þegar við horfum á Venus er hún í raun mjög lík jörðinni, álíka stór og álíka efnismikil og allt það. Við höfum merki um það að einhverntíman í fyrndinni hafi verið sjór þar, svo urðu loftslagsbreytingar sem urðu til þess að sjórinn gufaði upp og steig lífið þá til himna? Og er það þarna ennþá?“ spyr Sævar Helgi. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Þór Ægisson
Sævar Helgi Bragason.

Þó Venus sé nær jörðinni en margar aðrar reikistjörnur telst hún varla í seilingarfjarlægð. Rannsóknir á plánetunni hófust ekki að ráði fyrr en sjónaukinn kom til sögunnar, en það er einmitt með slíkum búnaði sem hinar nýfengnu upplýsingar eru fengnar. 

„Á jörðinni eru svona loftnet eða útvarpssjónaukar sem geta horft á Venus og eiginlega tekið fingraförin og fundið út hvaða efni eru í lofthjúpnum með því að skoða ljósið sem berst frá plánetunni. Eitt af þessum fingraförum sem fannst núna er frá þessu fosfín-gasi sem kom mjög á óvart og menn áttu alls ekki von á því að finna það þar og það er það sem gerir þessa uppgötvun svona brjálæðislega spennandi,“ segir Sævar Helgi. 

Fyrst sinn sem við finnum lífvænleg efni

Aðspurður segir Sævar Helgi að þetta sé risastór uppgötvun. 

„Þetta er í fyrsta sinn sem við finnum efni sem líf hreinlega gefur frá sér, án þess að geta þó stað fest að um líf er að ræða,“ segir hann.

Nánari rannsókna er þörf til að kanna hvort fosfínið  eigi sér lífrænar skýringar eða hvort það sé tilkomið vegna einhvers annars ólífræns ferlis. 

„Ef þetta kemur frá örverum þá erum við að tala um eina stærstu uppgötvun sögunnar. Þá erum við loksins búin að fá svar við spurningunni sem mig langar mest til að fá svar við, erum við ein? Ef svarið er nei þá get ég dáið glaður.“ 

Ein stærsta uppgötvun sögunnar

Þegar við vonum að eitthvað sé satt, eins og í þessu tilviki, þá þurfum við að vera sérstaklega varkár að plata okkur ekki sjálf. Þess vegna eru vísindamenn mjög varkárir í öllum yfirlýsingum jafnvel þó að við vitum innst inni að lífskýringin er bara hreint ekkert ósennileg,“ segir Sævar. 

Hann segist einnig vona að uppgötvunin verði til þess að meira púður verði sett í að komast til Venusar. 

„Ef við sendum gervitungl til Venusar í framtíðinni, einhvers konar loftbelgi, þá fáum við vonandi staðfest að um örverur er að ræða, þá höfum við bara gert eina stærstu uppgötvun sögunnar,“ segir Sævar Helgi. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV