Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tuga saknað í aurskriðum í Nepal

14.09.2020 - 06:15
Erlent · Hamfarir · Asía · Nepal
Mynd: AP / AP
Að minnsta kosti tólf eru látnir og tuga er saknað eftir að aurskriður féllu á tvö þorp í Nepal í gær. Tíu létu lífið og yfir tuttugu er saknað í Bahrabise, um hundrað kílómetrum austur af höfuðborginni Katmandu. Sama svæði varð hvað verst úti í jarðskjálftanum árið 2015. Enn var unnið að endurbótum eftir hann þegar aurskriðan féll og hrifsaði með sér fjölda heimila. Yfir hundrað hús eru ónýt eftir hamfarirnar.

Ofsafengið úrhelli hefur dembst yfir svæðið undanfarið. Al Jazeera hefur eftir Nimphunjo Sherpa, bæjarstjóra í Bahrabise, að þorpsbúar óttist frekari skriðuföll. Jarðvegurinn veiktist verulega eftir jarðskjálftana fyrir fimm árum.
Tveir létu lífið í þorpinu Baglung í norðvesturhluta landsins. Skriðurnar féllu báðar eldsnemma morguns og tókst fólki því ekki að flýja undan þeim að sögn björgunarmanna. Leit er þegar hafin af þeim sem er saknað.

Flóð og aurskriður af völdum monsúnregnsins frá því í júní hafa nú valdið yfir 300 dauðsföllum í Nepal. Rúmlega hundrað er saknað og 160 hafa slasast.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV