„Það mun kólna, sjáðu til“

14.09.2020 - 22:21
Mynd: EPA-EFE / Polaris POOL
Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í kvöld að léleg umhirða skóga sé ástæða gróðureldana miklu á Vesturströnd Bandaríkjanna og gaf lítið fyrir að loftslagsbreytingar magni upp eldana. Þá karpaði hann við forstjóra Náttúrufræðistofnunar Kaliforníu, sem varaði forsetann við því að virða loftslagsvísindi að vettugi.

Ekkert lát er á skógareldunum sem loga í Oregon, Kaliforníu og Washington-ríki. Rúmlega tuttugu þúsund ferkílómetrar af landi hafa brunnið, 35 hafa látist, tuga er saknað og þúsundir hafa misst heimili sín. 

Trump fundaði með viðbragsaðilum í Kaliforníu í kvöld. Wade Crowfoot, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Kaliforníu, sagði á fundinum að ef loftslagsvísindin væru virt að vettugi þá myndi stjórnvöldum ekki takast að vernda íbúa Kaliforníu. Bandaríkjaforseti svaraði: „Það mun kólna, sjáðu til“. Crowfoot sagðist óska þess að vísindin tækju undir með forsetanum. „Ég held að vísindin viti þetta ekki,“ svaraði Trump.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi