Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tekur á sálina þegar brotist er inn í verslunina

14.09.2020 - 13:23
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Lögreglan hafði hendur í hári skartgripaþjófs í miðborg Reykjavíkur í nótt. Sá hafði brotist inn í skartgripaverslunina Gull og silfur við Laugaveg og haft á brott með sér fullan poka af skartgripum.

Talið er að verðmæti skartgripanna hlaupi á milljónum króna. Öryggiskerfi skartgripaverslunarinnar fór í gang þegar þjófurinn braut gler í útidyrahurðinni og lét greipar sópa.

Lögreglan var fljót á vettvang, að sögn Kristjönu Ólafsdóttur, annars eiganda Gulls og silfurs. Vitni gaf greinargóða lýsingu á þjófnum sem náðist á hlaupum í nágrenninu.

Kristjana og eiginmaður hennar Sigurður G. Steinþórsson reka verslunina við Laugaveg. Gullsmíðaverkstæði þeirra hefur verið í eigu sömu fjölskyldu í nærri hálfa öld.

Kristjana segir að aðkoman hafi verið ófögur þegar þau hjónin komu í verslunina í morgun. „Það voru glerbrot úti um allt. Og svo skildi hann eftir smá DNA á einu gleri.“

Þjófurinn tók öll gullarmböndin sem voru í versluninni auk gullhringa og gullnæla. Kristjana segist ekki enn vita hvort allt skili sér aftur. Lögreglan hefur munina enn í sinni vörslu.

Kristjana segist ekki vita hvort þjófurinn skemmdi mikið af þeim gripum sem hann tók. „Við vitum það ekki ennþá. Ef þessu er bara hent ofan í poka þá er líklegt að það sé eitthvað.“

Þetta er í annað sinn á þessu ári sem brotist er inn í verslunina. Síðast braut þjófur gler og náði skartgripum úr gluggaútstillingunni. Núna er tjónið aðeins meira og Kristjana segir að þetta taki á sálina. „Æ, þetta er svona. Þetta fer inn á sálina og manni finnst eins og það sé gengið inn á sitt persónulega svæði. Svo, jú, þetta tekur á. Þetta er ekkert þægileg tilfinning.“

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV