Suga kosinn arftaki Abe og ráðherrastóllinn í augsýn

14.09.2020 - 07:34
Erlent · Asía · Japan · Stjórnmál
epa08667595 Japan's Prime Minister Shinzo Abe (L) presents Chief Cabinet Secretary Yoshihide Suga (R) flowers after Suga was elected as new head of Japan's ruling party during the Liberal Democratic Party's (LDP) leadership election in Tokyo, Japan, 14 September 2020.  EPA-EFE/EUGENE HOSHIKO / POOL
 Mynd: EPA-EFE - AP POOL
Yoshihide Suga hlaut yfirburðarkosningu um að verða leiðtogi Frjálslynda lýðræðisflokksins í Japan í dag og verður að óbreyttu útnefndur forsætisráðherra landsins á miðvikudag. Fráfarandi forsætisráðherra, Shinzo Abe, sagði af sér af heilsufarsástæðum í lok ágúst.

Suga, sem er einn æðsti embættismaður ríkisstjórnarinnar, hlaut 377 atkvæði af 534 hjá flokknum, en japanska þingið kýs svo um það á miðvikudag hvort Suga taki við embætti forsætisráðherra. Það verður að teljast afar líklegt að það gangi eftir því Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn er þar í meirihluta, og klárar hann þá kjörtímabilið sem lýkur í september á næsta ári.

Suga er 71 árs og var náinn samstarfsmaður Abe í flokknum og er talinn ætla að halda stefnumálum forvera síns á lofti.

„Við erum í miðjum heimsfaraldri kórónuveiru og getum ekki tekist á við pólitíska óvissu á sama tíma. Til þess að komast yfir þessa erfiðleika og veita japönsku þjóðinni þá hjálp sem hún þarf, þá þurfum við að halda þeim mikilvægu málum áfram á lofti sem Abe vann að. Það verður mitt hlutverk,“ sagði Suga eftir útnefningu flokksins.

Afsögn Abe kom mörgum á óvart, en hann hefur þjáðst af sáraristilbólgu síðustu ár. Þetta var í annað sinn sem hann segir af sér vegna heilsunnar, en skömmu áður hafði hann náð þeim áfanga að verða sá forsætisráðherra sem lengst hefur setið samfleytt í embætti. Hann fór fram úr frænda sínum Eisaku Sato sem sat á forsætisráðherrastóli semfleytt í 2.798 daga á árunum 1964 til 1972. 

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi