Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Segir ráðherrum skylt að hlutast til um málið

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Sex manna egypsk fjölskylda sem vísa á úr landi á miðvikudag verður skimuð fyrir kórónuveirunni síðdegis í dag. Þetta er liður í undirbúningi vegna brottvísunar fjölskyldunnar til Egyptalands. Upphaflega stóð til að yfirvöld myndu sækja tvö barnanna í skólann á skólatíma og fara með þau í skimun en að sögn skólastjóra varð ekki af því. Börnin fara aftur í skólann á morgun.

Forsætisráðherra segir meðferðina ómannúðlega

Fjölskyldan kom til landsins í ágúst 2018 og sótti þá um alþjóðlega vernd. Útlendingastofnun synjaði þeim um vernd í lok júlí í fyrra á grundvelli þess að þau ættu ekki á hættu ofsóknir eða illa meðferð í heimalandinu. Málsmeðferð þeirra tók rúma 15 mánuði en þau hafa dvalið á Íslandi í rúm tvö ár.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lét þau orð falla á Bylgjunni í gær að tíminn sem fjölskyldan hefur búið við óvissu, frá því að hún kom til landsins þar til henni er vísað úr landi, sé óboðlegur og ómannúðlegur. Meðferð máls þeirra var innan löglegra marka, sextán mánaða. Magnús Davíð Norðdahl, lögfræðingur fjölskyldunnar, er bjartsýnn á að fjölskyldan fái dvalarleyfi eftir ummæli forsætisráðherra.

„Við teljum að það sé von í þessu máli eins og öðrum sambærilegum málum sem hafa komið upp á síðustu árum og það er auðvitað einstaklega ánægjulegt að forsætisráherra landsins, Katrín Jakobsdóttir, hafi stigið fram um helgina og tekið afstöðu með egypsku fjölskyldunni. Hún segir í viðtali á Sprengisandi að það sé ómannúðlegt að leggja þetta á þessi börn og önnur börn sem í þessari stöðu eru og þetta skiljum við sem stuðningsyfirlýsingu við fjölskylduna. Þegar forsætisráðherra talar með þessum hætti og tekur afstöðu með fjölskyldunni þá hlýtur það að hafa einhverja merkingu.“

Hann segir að það skjóti þó skökku við og sé ákaflega sorglegt að á sama tíma og stuðningur berst frá forsætisráðherra sé stoðdeild ríkislögreglustjóra á fullu að undirbúa brottvísunina.

Ráðherrum skylt að hlutast til um málið

Friðþjófur Karl Helgason skólastjóri Háaleitisskóla skorar sérstaklega á Ásmund Einar Daðason barnamálaráðherra að beita sér í málinu af festu.

„Hann getur ekki bent á aðra í þessu máli, hann á í embætti sínu að gæta sérstaklega að réttindum barna. Hann er að bregðast skyldum sínum ef hann kemur ekki í veg fyrir það mikla órétti sem þessi börn eru um það bil að verða beitt. Siðferðislega og lagalega er honum ekki stætt á öðru að mínu mati.“

Friðþjófur segir að aðgerðir yfirvalda brjóti á grundvallarmannréttindum barnanna og um fyrrgreind ummæli forsætisráðherra segir hann:

„Auðvitað á hún í sínu embætti, sem forsvarsmaður ríkisstjórnarinnar, að hlutast þá til um málið. Mér finnst það henni skylt ef hún hefur þessa skoðun á málinu.“

Leiðrétt 14:30 - Ummæli Katrínar voru leiðrétt. Rétt er að Katrín sagði óvissutímann í tilviki fjölskyldunnar, eftir að hún kom til landsins þar til henni  er vísað úr landi vera ómannúðlegan og óboðlegan, ekki löglegan málsmeðferðartíma sérstaklega.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hjónin Dooa og Ibrahim ásamt börnum sínum.