
Segir friðun engin áhrif hafa á Sundabraut
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði í fréttum útvarps í gær að Minjastofnun áformaði friðlýsingu á fyrirhuguðu vegstæði Sundabrautar og að það gæti haft veruleg áhrif á framkvæmdina. Þessu hafnar Kristín Huld.
„Það kom fram í fréttum Ríkisútvarpsins í gær í viðtali við borgarstjóra að friðlýsing svæðisins við Álfsnes og Þerneyjarsund myndi skerða vegstæði Sundabrautar. Það er bara einfaldlega ekki rétt, það þarf alls ekki að gerast. Vegagerðin á reyndar eftir að skila inn umsögn um friðlýsingaráformin hjá okkur og ég vænti þess að fá hana í næstu viku,“ segir Kristín.
Kristín segir að á umræddu svæði séu meðal annars minjar kauphafnar í Þerneyjarsundi frá 14. öld sem talin sé forveri Reykjavíkurkaupstaðar.
„Og það eru reyndar líka eldri minjar á svæðinu. Á Álfsnesi eru, auk leifa eftir höfnina, mógrafir, minjar fiskbyrgja, leifar tveggja bæjarstæða, þetta er sögusvið Kjalnesingasögu og höfnin er nefnd í ýmsum miðaldaheimildum.“
Kristín segir að minjarnar séu sjálfkrafa aldursfriðaðar eins og aðrar minjar sem eru 100 ára og eldri. „Og það má einfaldlega ekki veita heimild til neins konar framkvæmda á svæðinu án þess að ákvörðun Minjastofnunar Íslands um minjarnar liggi fyrir,“ segir Kristín.