Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir friðun engin áhrif hafa á Sundabraut

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Fyrirhuguð friðlýsing svæðis við Álfsnes og Þerneyjarsund mun ekki skerða vegstæði Sundabrautar. Þetta segir Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar sem segir að varðveisla minja og lagning brautarinnar geti vel farið saman.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði í fréttum útvarps í gær að Minjastofnun áformaði friðlýsingu á fyrirhuguðu vegstæði Sundabrautar og að það gæti haft veruleg áhrif á framkvæmdina. Þessu hafnar Kristín Huld.

„Það kom fram í fréttum Ríkisútvarpsins í gær í viðtali við borgarstjóra að friðlýsing svæðisins við Álfsnes og Þerneyjarsund myndi skerða vegstæði Sundabrautar. Það er bara einfaldlega ekki rétt, það þarf alls ekki að gerast. Vegagerðin á reyndar eftir að skila inn umsögn um friðlýsingaráformin hjá okkur og ég vænti þess að fá hana í næstu viku,“ segir Kristín.

Kristín segir að á umræddu svæði séu meðal annars minjar kauphafnar í Þerneyjarsundi frá 14. öld sem talin sé forveri Reykjavíkurkaupstaðar. 

„Og það eru reyndar líka eldri minjar á svæðinu. Á Álfsnesi eru, auk leifa eftir höfnina, mógrafir, minjar fiskbyrgja, leifar tveggja bæjarstæða, þetta er sögusvið Kjalnesingasögu og höfnin er nefnd í ýmsum miðaldaheimildum.“

Kristín segir að minjarnar séu sjálfkrafa aldursfriðaðar eins og aðrar minjar sem eru 100 ára og eldri. „Og það má einfaldlega ekki veita heimild til neins konar framkvæmda á svæðinu án þess að ákvörðun Minjastofnunar Íslands um minjarnar liggi fyrir,“ segir Kristín.