Rúnar Alex í læknisskoðun hjá Arsenal

Mynd með færslu
 Mynd: KSÍ - RÚV

Rúnar Alex í læknisskoðun hjá Arsenal

14.09.2020 - 17:50
Landsliðsmarkvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson er á leið til Arsenal samkvæmt miðlum þar í landi. Kaupverðið er talið vera í kringum eina og hálfa milljón punda eða 250 milljónir króna og gengur hann til liðs við félagið frá franska liðinu Dijon.

Rúnar Alex hefur þurft að sætta sig við varamarkmannshlutverkið hjá Dijon á þessari leiktíð og kemur hann til Arsenal aðallega vegna tengsla við markmannsþjálfara félagsins, Spánverjinn Inaki Cana þekkir vel til Rúnars en þeir unnu saman hjá Nordsjælland á sínum tíma. Rúnar sem er 25 ára á að baki tvö tímabil með Dijon og þrjú með Nordsjælland í atvinnumennsku.

Rúnar Alex fór í læknisskoðun hjá Arsenal í dag samkvæmt heimildum 433.is. Arsenal fær Rúnar til að leysa af Emiliano Martinez, varamarkmann félagsins, sem er á förum til Aston Villa. 

Ljóst er að ef af verður verða þetta ein stærstu félagsskipti Íslendings í knattspyrnu á erlendri grundu.