Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Oracle fær TikTok í Bandaríkjunum

14.09.2020 - 02:07
epa08656811 (FILE) - The Oracle Corp., offices in Burlington, Massachusetts, USA, 10 April 2017 (reissued 09 September 2020). Oracle is due to release their 1st quarter, Fiscal Year 2021 earnings on 10 September 2020.  EPA-EFE/CJ GUNTHER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Hugbúnaðarfyrirtækið Oracle stýrir aðgerðum myndbanda-appsins TikTok á Bandaríkjamarkaði samkvæmt heimildum fjölmiðla vestanhafs. Skömmu áður en greint var frá því barst yfirlýsing frá Microsoft um að tilboði fyrirtækisins í TikTok hafi verið hafnað.

TikTok er í eigu kínverska fyrirtækisins ByteDance. Staða appsins á Bandaríkjamarkaði er sterk, en Bandaríkjaforseti sagði ítrekað að lokað yrði á appið í landinu nema það yrði selt bandarísku fyrirtæki fyrir 15. þessa mánaðar. Donald Trump undirritaði tilskipun þess efnis 6. ágúst að appið yrði bannað ef ByteDance seldi ekki appið innan 45 daga. Hann sagði það stefna efnahag og þjóðaröryggishagsmunum Bandaríkjanna í hættu verði það ekki selt. 

Bandaríkjastjórn hefur þrýst á sölu. Hún hefur áhyggjur af því að TikTok geti safnað upplýsingum um Bandaríkjamenn og fært kínverskum stjórnvöldum. Eigendur TikTok segjast ekki hafa verið beðnir um að deila gögnum sínum með kínversku stjórninni, og geri það ekki verði þeir beðnir um það.

Nú virðist sem nýir eigendur á Bandaríkjamarkaði séu komnir til sögunnar. Oracle verður kynnt sem traustur samstarfsaðili á Bandaríkjamarkaði, samkvæmt heimildum Wall Street Journal

TikTok er feykilega vinsælt, með nærri 700 milljón notendur á heimsvísu. Um 100 milljón notendur eru í Bandaríkjunum.