Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Fleiri sækja um námslán

14.09.2020 - 19:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Rúmlega þúsund fleiri lánsumsóknir hafa borist Menntasjóði námsmanna nú í haust miðað við sama tíma í fyrra. Framkvæmdastjóri sjóðsins segir efnahagsástandið skýra þessa aukningu að mestu leyti því erfiðara sé fyrir námsmenn að fá vinnu.

Frestur til að sækja um námslán fyrir haustönn rennur út á morgun. Yfir sex þúsund umsóknir hafa þegar borist, en voru rúmlega fimm þúsund á sama tíma í fyrra. Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir framkvæmdastjóri Menntasjóðs segir alþekkt að umsóknum fjölgi þegar samdráttur er í efnahagslífinu líkt og nú.

„Kannski líka út af því að það eru færri námsmenn sem geta unnið með námi heldur en var og svo framvegis. Þannig að það eru margþættar ástæður fyrir því,“ segir Ásta.

Ný lög um Menntasjóð námsmanna tóku gildi í sumar. Samtímis var byrjað að bjóða upp á nýja tegund námslána.

Gömlu lánin, svokölluð G-lán eru verðtryggð og bera 0,4 prósenta vexti.

Nýju lánin bera hærri vexti sem eru breytilegir. Vextir á verðtryggðum lánum eru 0,8 til 4 prósent og vextir á óverðtryggðum lánum 0,8 upp í 9 prósent. Fram að námslokadegi eru lánin verðtryggð en hins vegar vaxtalaus. Þá eru greiddir styrkir vegna framfærslu barna í stað lána og námsmenn fá 30 prósenta niðurfellingu á námslánaskuld ljúki þeir námi á tilskildum tíma.

Þeir sem þegar voru að taka lán samkvæmt eldri skilmálum geta haldið því áfram eða skipt yfir í nýju lánin. Hrafnhildur segir að flestir, eða um 80 prósent hafi kosið að færa sig yfir í nýju lánin. Hún segir að sjóðurinn hafi ekki lagt mat á það hvort nýju lánin séu hagstæðari en þau gömlu.

„Við erum kannski ekki að bera þau saman með þeim hætti. Námsmönnum voru tryggðir lágir vextir á gömlu lánunum og það er auðvitað sama með þessi lán og nýju og þau falla niður við andlát og svo framvegis. En við erum ekki að bera þau saman með þeim hætti. Það eru bara komin ný lán og það er hagstætt fyrir námsmenn að fá 30 prósenta niðurfellingu og styrk með börnum þannig að þetta er staðan eins og hún er í dag,“ segir Hrafnhildur. 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV