„Ég læt brimið dynja á mér án þess að gefa eftir“

Mynd: RÚV/Þjóðkirkjan / RÚV/Þjóðkirkjan

„Ég læt brimið dynja á mér án þess að gefa eftir“

14.09.2020 - 09:54

Höfundar

„Vestfirðir geta mjög auðveldlega eignað sér stærsta hlutann af hjarta þínu og þannig var það með mig,“ segir Pétur G. Markan fyrrum bæjarstjóri á Súðavík. Hann hefur valdið usla í hlutverki sínu sem samskiptastjóri Þjóðkirkjunnar og hefur markaðsefni þar sem Jesús er sýndur með brjóst og andlitsfarða farið fyrir brjóstið á mörgum.

Ýmsir prestar og starfsfólk kirkjunnar andmæltu þessari birtingarmynd frelsarans í síðustu viku og í gær sendi sextugasta kirkjuþing Þjóðkirkjunnar frá sér yfirlýsingu þar sem það er harmað að myndin hafi sært fólk. Myndin virðist líka hafa verið tekin út af vef kirkjunnar og samfélagsmiðlum hennar. Maðurinn á bak við uppátækið er Pétur G. Markan sem var gestur Sigurlaugar M. Jónasdóttur í Segðu mér á fimmtudag. Pétur segir að þrátt fyrir að það sé liðið ár frá því hann flutti til Reykjavíkur lifi Vestfirðirnir í huga hans og hjarta. „Ég fæ líka útrás fyrir þetta því Agnes M. Sigurðardóttir biskup, sem ég vinn mikið með, er Vestfirðingur inn að beini, fæddist á Ísafirði og var sóknarprestur í Bolungarvík. Við fáum útrás fyrir þessa Vestjarðaþrá okkar saman.“

Pétur fluttist vestur 19 ára gamall til að spila fótbolta og klára síðasta árið sitt í menntaskóla. „Þá var ég á tímamótum í lífinu, þótti þokkalega efnilegur fótboltamaður og var lánaður vestur ef ég man rétt.“ Hann missti föður sinn 17 ára gamall. „Þá kom tímabil hjá ungum manni að missa svolítið þráðinn, markmiðin, ég vissi ekki alveg hver þau voru. En það sem gerðist er að ég fór vestur, spilaði fótbolta, og varð svolítið að manni, kláraði menntaskólann og fékk fyrri styrk, tók þátt í félagsstarfi, og fékk aftur lit í andlitið og kinnarnar.“

Guðfræðin mesta heillaskrefið

Faðir Péturs dó úr lungnakrabbameini og þá breyttist allt í lífi Péturs sem átti tvær alsystur og eina hálfsystur. „Þá breytist svolítið hlutverkið manns inni á heimilinu. Það sem maður upplifir þegar maður lítur aftur að þetta er svo mótandi fyrir persónuna.“ Hann telur að missirinn hafi gert hann ábyrgari gagnvart umhverfi sínu og orðið til þess að hann var óhræddari við að taka að sér krefjandi verkefni. „Maður finnur það í ólgusjónum eitt sem ég hef tamið mér; ég breyti mér í klett. Ég læt brimið dynja á mér án þess að gefa eftir. Þetta er eiginleiki sem ég mynda með sjálfum mér í kringum svona atburði í lífinu. En þann dag í dag, ég er 39 ára og á mína eigin fjölskyldu, ég fæ stundum barnalegar tilfinningar af afbrýði þegar ég sé vini mína með pöbbum sínum, fara að veiða og svona. Þannig þetta lifir í manni.“

Þessi ábyrgðartilfinning hefur fylgt Pétri í lífinu bæði sem fjölskylduföður og í starfi. „Ég er þannig samansettur að það fer svolítið fyrir mér. Ég vill hafa áhrif á umhverfi mitt, ég legg línur og reyni að fá fólk á mitt band. En ég tek ábyrgð og skorast heldur ekki undan ef það gengur ekki vel.“ Þegar Pétur var á leið í háskóla hallaðist hann mest að lögfræði eða guðfræði. „Ég er alinn upp á trúuðu heimili og alltaf haft mikinn áhuga á guði og trúarlegri hegðun. Ég tók ákvörðun um guðfræðina og það er eitt mesta heillaskref sem ég hef tekið, þó ég hafi aldrei ætlað mér að vera prestur.“ Námsárin hafi reyndar mikið til farið í félagsstörf og stúdentapólitík en hann var meðal annars framkvæmdastjóri Stúdentaráðs.

„Næs“ að verða prestsfrú

Fótboltinn hvarf ekki beinlínis úr lífi Péturs en færðist þó hægt og hægt á hliðarlínuna. „Ég er undarlegt eintak af knattspyrnumanni að því leyti að ég hef ekki sérstakan áhuga á fótbolta. Eftir því sem ég verð eldri þá var þetta meira vinnan mín. Að einhverju leyti að það kannski ástæðan fyrir því ég varð ekki betri,“ segir Pétur glettinn. Sambýliskona Péturs er Margrét Lilja Vilmundardóttir guðfræðinemi og þau eiga þrjú börn saman, það yngsta tveggja ára. Þau kynntust í Háskólanum og hún vinnur í Víðistaðakirkju meðfram námi og stefnir á að verða prestur. „Þannig að ég verð prestsfrú,“ segir Pétur. „Ég held það sé mjög næs. En kirkjunnar mál eru mikið rædd við eldhúsborðið.“ Margrét Lilja er nú að skrifa rannsóknarritgerð um intersex-fólk sem gæti hafa kveikt hugmynd Péturs að þessu nýjasta umdeilda útspili kirkjunnar. „Ég hafði ekki áttað mig á hversu margir skilgreina sig sem intersex og áhrifin sem þetta hefur á einstaklingana.“ Það sé mjög stutt síðan farið var að ræða málefnið opinberlega. „Það sem gerist þegar við förum að tala um hlutina er að við förum að viðurkenna þá. Sem er sennilegasta það mikilvægasta sem við manneskjurnar þurfum, viðurkenningu á því sem við erum.“

Mynd með færslu
 Mynd: Þjóðkirkjan - Kynningarefni
Myndin umdeilda var opnumynd Þjóðkirkjunnar á Facebook en hefur nú verið tekin út.

Pétri vegnaði vel í starfi sveitarstjóra á Súðavík og samhliða því var hann formaður Fjórðungssambands sveitarfélaga á Vestfjörðum og hafði nýlega stofnað Vestfjarðastofu. „Ég leiddi þá vinnu, sem var samruni Fjórðungssambandsins og Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða.“ En eftir eitt ár af seinna kjörtímabilinu þurfti Margrét  kærasta hans að flytja suður til að klára embættisnámið og þá flutti fjölskyldan öll í Hafnarfjörðinn. Pétur sótti þá um starf samskiptastjóra Þjóðkirkjunnar, sem hann hreppti, og kynnist þá aftur Agnesi sem hann hafði þekkt þegar hún var prestur í Bolungarvík. „Það eru mikil forréttindi að fá að vinna með fólki sem ber af, sem hún gerir svo sannarlega.“ Samskiptastjóri kirkjunnar fer með ímyndarmál og er tengiliður við fjölmiðla. „Kirkjan er stór og fjölmenn stofnun og mörg verkefni sem fjölmiðlar hafa áhuga á, og það er mikilvægt að það sé trúnaður þarna á milli.“ Þá sé kirkjan einnig með eigin miðla, heimasíðu og samskiptamiðla, og eigi þannig í samtali við þjóðina.

Andlega þenkjandi landi

Eitthvað hefur heyrst af úrskráningum úr Þjóðkirkjunni undanfarna daga en Pétur segist ekki hafa tölur um það á reiðum höndum. „Hins vegar hefur verið stöðugt rennsli úr Þjóðkirkjunni allt frá 2000. Það virðist verða til félagsleg vitneskja um að þú getir sagt skoðun þína á Þjóðkirkjunni með því að segja þig úr henni.“ Pétur segir mikilvægt í þessu samhengi að greina á milli trúarlífs og aðildar að kirkju. „Ég sé ekki annað en að landinn sé nokkuð trúaður, andlega þenkjandi.“ Hann segir augljóst að Þjóðkirkjan vilji hafa sem flesta meðlimi en ekki megi greina að fólk sé að ganga af trúnni þó það yfirgefi kirkjuna. „Við verðum bara að gera betur í stjórnsýslu kirkjunnar og eiga meira samtal við þjóðina.“

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Gauti Gunnarsson - RÚV
Þó að hinn brjóstgóði Jesús hafi verið fjarlægður af vef kirkjunnar og samfélagsmiðlum keyrir hann nú greitt um götur borgarinnar.

Það hefur aldeilis gustað um Pétur í starfi og hann segir gott að finna að fólki sé ekki sama um kirkjuna. „Annað sem mér finnst mjög gott að sjá er að landinn sé að iðka guðfræði, það er heilmikil guðfræði fólgin í því að senda frá sér ritaðan texta um kristsmynd. Alveg sama hvort þú ert sammála eða ekki.“ Hann segist hafa búist við viðbrögðum við myndinni en þyki leitt að fólki hafi sárnað. „En ég átti ekki von á að þetta yrði svona mikill hvellur.“ Það verði hins vegar að vinna úr þeim aðstæðum sem upp séu komnar og takast á við af heiðarleika og æðruleysi.

Ekkert að því að bera fram trans Jesú

Myndin fræga af Jesú með brjóst er nú komin á strætisvagn sem keyrir um götur borgarinnar en Pétur segir að það sé ekki stærstur hluti myndarinnar. „Helsta áskorun kirkjunnar ásamt öllum öðrum er umhverfismál. Þannig að strætóinn er umvafinn náttúru til að minna á að kirkjan er liðsmaður í umhverfisvernd.“ Hann segist skilja vel að fólk hafi sína eigin skýru mynd af Jesú og sárni ef hann er settur fram í öðru samhengi. Hins vegar sé í guðfræði talað um hinn sögulega Jesú biblíunnar og hins vegar Krist trúarinnar. „Kristur trúarinnar hefur verið túlkaður á margan hátt í gegnum söguna. Sú túlkun sem hefur haft mest áhrif á mig er Homeless Jesus eftir kanadískan listamann, liggjandi maður á grúfu á bekk, undir smá teppi og alveg bugaður. Hann er auðmjúkur, afskiptur og enginn sigurvegari, hann er úrhrak samfélagsins.“

Mynd með færslu
 Mynd: Pjposullivan - Timothy Schmalz
Skúlptúrinn Heimilislausi Jesú eftir kanadíska listamanninn Timothy Schmalz hafði mikil áhrif á Pétur.

Pétur segir ekki ólíklegt að hugmyndin að þessum brjóstgóða Jesú hafi kviknað eftir samtöl hans við konu sína um intersex-fólk. „Sumir sjá trans Jesú. Mér finnst ekkert að því að bera fram trans Jesú. Jesú er trans fyrir þann sem er trans og trúaður og þarf að finna umvefjandi faðm krists. En það var ekki hugmyndin, við vorum bara að teikna jesú með brjóst og skegg og svo heldur umræðan áfram.“ Hann segist bera virðingu fyrir andstæðum skoðunum en skilur ekki áhyggjur fólks af því að þessi birtingarmynd sé sett fram í barnaefni. „Hvað er að því að tala við börn um fjölbreytileika samfélagsins. Ef þú hefur tækifæri á mótunarárum barns að segja því að samfélagið sé alls konar, og við séum öll jöfn undir guði. Ef við getum bara komið því inn hjá einstaklingi að hann gangi með þessa vissu í maga og huga, að við séum jöfn, og skipti ekki máli hvort við erum trans, gagnkynhneigð eða hvað, þá höfum við náð miklum árangri með sunnudagaskóla.“

Tengdar fréttir

Tónlist

„Það rann ekki af mér í nokkur ár“

Menningarefni

Kippt inn í heim fullorðinna við fráfall föður síns

Menningarefni

„Þessi atburður setti fjölskylduna á hliðina“

Menningarefni

„Svona sársauki getur tætt mann í sundur og eyðilagt“