Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Boris kom umdeildu frumvarpi gegnum annan lestur

14.09.2020 - 23:54
epa08669259 A handout photo made available by the UK Parliament shows Britain's Prime Minister Boris Johnson attending the debate into the Government's proposed Internal Markets Bill in the House of Commons in London in London, Britain, 14 September 2020.  EPA-EFE/JESSICA TAYLOR / UK PARLIAMENT HANDOUT  MANDATORY CREDIT: UK PARLIAMENT HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - UK PARLIAMENT
Breska þingið samþykkti í kvöld að vísa umdeildu lagafrumvarpi Boris Johnson forsætisráðherra til nefndar. Það er næsta skref í lagasetningarferlinu. Frumvarpið kveður á um að ráðherrar geti ákveðið að víkja frá vissum ákvæðum útgöngusamnings Breta við Evrópusambandið um að ESB-reglur gildi áfram að hluta á Norður-Írlandi. Slíkt brýtur í bága við útgöngusamninginn sem flokkast sem alþjóðalög.

Þrátt fyrir harða gagnrýni innanlands og utan og óánægju ýmissa þingmanna Íhaldsflokksins greiddu 340 þingmenn atkvæði með frumvarpinu en 263 á móti. Johnson forsætisráðherra var þá búinn að segja þingmönnum að alls óvíst væri að umdeildustu atriði lagafrumvarpsins kæmu nokkurn tímann til framkvæmda. Hann sagði að ákvæði um að tryggja innri markað alls Bretlands væri öryggisráðstöfun til að bregðast við því ef enginn viðskiptasamningur næst við Evrópusambandið fyrir áramót. „Þetta er vörn, þetta er öryggisnet, þetta er trygging og þetta er mjög skynsamleg ráðstöfun,“ sagði Johnson. 

Samkvæmt útgöngusamningi Breta við Evrópusambandið gilda sumar reglur Evrópusambandsins áfram á Norður-Írlandi eftir að úrsögnin tekur gildi að fullu. Það er ekki síst til að tryggja viðskiptin við Írland og samskipti. 

Þingmenn greiddu atkvæði í lok annars lesturs frumvarpsins, eins og það heitir í breska þinginu. Frumvarpið fer nú fyrir nefnd þar sem farið er í gegnum það fyrir þriðja lestur. Ef breska þingið samþykkir frumvarpið í þriðja lestri fer það fyrir lávarðadeildina til staðfestingar áður en lögin verða færð drottningu til undirritunar.