Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bjartsýni í ferðaþjónustu á Norðurlandi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Meirihluti forsvarsmanna ferðaþjónustufyrirtækja á Norðurlandi telur að fyrirtæki þeirra muni komast í gegnum þá erfiðleika sem COVID-19 faraldurinn hefur orsakað, samkvæmt könnun Markaðsstofu Norðurlands. Rétt um helmingur fyrirtækjanna hefur ekki getað nýtt sér stuðningsaðgerðir stjórnvalda.

Markaðsstofa Norðurlands kannaði um síðustu mánaðamót til hvaða aðgerða ferðaþjónustufyrirtæki á Norðurlandi hafa gripið til vegna faraldursins. „Niðurstöðurnar voru, eins og í sambærilegri könnun í vor, ótrúlega jákvæðar svona miðað við hvernig staðan er. Stór hluti fyrirtækja hafði opið í sumar og hafði mikið að gera þrátt fyrir að rekstrartekjur væru ekki miklar,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.

Fyrirtæki búi sig nú undir erfiðan vetur og muni markaðssetja sig fyrir vetrarferðir Íslendinga. Hún telur fyrirtæki á Norðurlandi betur í stakk búinn til að takast á við veturinn en suðvesturhornið enda fyrirtækin vön miklum árstíðasveiflum. 

Tólf prósent óviss um framtíð fyrirtækisins 

Hundrað sextíu og fimm fyrirtæki tóku þátt í könnununni. Um 75% fyrirtækja ætla að hafa opið í vetur, álíka mörg og telja líklegt að þau lifi faraldurinn af. Tólf prósent segjast ekki vita hvort fyrirtækið eigi eftir að komast af. Helmingur svarenda hefur nýtt sér úrræði stjórnvalda, þar af nýta um 80% hlutabótaleiðina en 23% ætla að fá lokunarstyrki.

Úrræði ríkisstjórnarinnar ekki fyrir alla

Samkvæmt könnuninni hefur rétt um helmingur ekki getað nýtt sér stuðning stjórnvalda. Arnheiður segir þau ekki vita hvers vegna það sé, hvort það sé vegna árstíðasveiflna eða stærðar fyrirtækjanna, en flest fyrirtækin í könnununni eru lítil, með færri en fimm starfsmenn. Mikilvægt sé að stjórnvöld skoði skilmála þeirra aðgerða sem nú þegar sé búið að kynna og sjái hvers vegna þau virka ekki fyrir fleiri en raun ber vitni og komi til móts við þau fyrirtæki. 

Þegar Arnheiður er spurð að því hver næstu skref stjórnvalda ættu að vera segir hún: „Ég held þau þurfi að koma með meira af stuðningi sem er beinn stuðningur, ekki lán, þar sem fyrirtæki eru hreinlega ekki í þeirri stöðu að geta skuldsett sig meira. Og ég held það þurfi að skoða alla kostnaðarliði bæði hjá ríki og sveitarfélögum sem mögulega er hægt að skera niður til þess að koma þessum fyrirtækjum í gegnum þungan vetur og mögulega þungt sumar því við vitum jú ekkert hvenær opnar á ný.“

Niðurstöður könnunarinnar má finna hér