Benedikt sækist eftir oddvitasæti á suðvesturhorninu

14.09.2020 - 13:10
Mynd með færslu
 Mynd: Silfrið - RÚV
Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármálaráðherra og fyrrverandi formaður Viðeisnar, hefur ákveðið að sækjast eftir oddvitasæti á lista Viðreisnar á suðvesturhorninu fyrir alþingiskosningarnar á næsta ári. Benedikt vildi ekki greina frá hvar hann sæktist eftir oddvitasæti; hvort það yrði í Suðvesturkjördæmi þar sem fyrir er formaður flokksins eða í öðru Reykjavíkurkjördæmanna.

Benedikt er stofnandi Viðreisnar og bauð sig fram í Norðausturkjördæmi í þingkosningunum 2016.

Hann var fjármálaráðherra í skammlífri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Víðreisnar en sagði af sér sem formaður flokksins vegna ummæla sem hann lét falla í sjónvarpsþættinum Leiðtogasætið á RÚV um málið sem sprengdi ríkisstjórnina. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tók þá við formennsku í flokknum.  Benedikt náði ekki aftur kjöri í kosningunum 2017.

Benedikt segist í samtali við fréttastofu ekki geta verið neitt afdráttarlausari núna um hvar hann ætli fram. Það sé ár í kosningar og því enn nægur tími til stefnu og margt geti breyst. Hann segir að það séu ekki nýjar fréttir að hann ætli fram á ný, heldur jafnvel að hann hafi sagt frá því í útvarpsþætti fyrir tveimur árum, en nú sé þetta skjalfest. 

Í yfirlýsingu sinni segir hann að aðstæður hafi gerbreyst og árin undir núverandi ríkisstjórn hafi verið óhagstæð baráttumálum Viðreisnar. „Popúlistar sækja fram og ná þingsætum.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi