Áhættusöm fjárfesting

14.09.2020 - 20:37
Mynd: Bjarni Rúnarsson / RÚV
Tuttugu milljarða króna hlutfjárútboð er risastór gjörningur á íslenskum fjármálamarkaði segir Ásgeir Brynjar Torfason, sérfræðingur í fjármálum. Á miðvikudagsmorguninn hefst hlutafjárútboð Icelandair og lýkur síðdegis á fimmtudaginn. Á rúmum sólarhring er stefnt að því að safna tuttugu milljörðum hluta, jafnvel tuttugu og þremur milljörðum verði eftirspurnin næg og er verðið króna á hlut. Niðurstaðan verður svo kynnt á föstudaginn.

 Á þingstubbnum svonefnda í byrjun mánaðar samþykkti svo Alþingi um sextán milljarða ríkisábyrgð gagnvart Icelandair vegna heimsfaraldursins. Útboðinu hefur verið frestað nokkrum sinnum og það segir Ásgeir Brynjar Torfason sérfræðingur í fjármálum vel skiljanlegt í ljósi aðstæðna.

Hinn frjálsi markaður dugir ekki til að leysa allan vanda

Ásgeir Brynjar segir að bæði bankahrunið fyrir tólf árum og faraldurinn hafi dregið það fram að ofurtrú á frjálsan markað sem einu lausn mála hafi fengið töluvert bakslag. Icelandair sé talið kerfislega mikilvægt félag og stór flugfélög um allan heim fái nú mörg mikinn opinberan stuðning.  
Menn velta því að sjálfsögðu fyrir sér hverjir verða kaupendurnir; lífeyrissjóðirnir sem eru þegar stórir eigendur eru oft nefndir. Fyrir helgi sagði Þórey S. Þórðardóttir framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða í Speglinum að afstaða sjóðanna til frekari fjárfestingar í Icelandair væri ekki endilega sú sama. 

Gera verði greinarmun á hlutverkum stjórna sjóðanna og verkalýðsfélaganna

Forráðamenn verkalýðsfélaga hafa sumir goldið varhug við frekari fjárfestingum í Icelandair. Í Morgunblaðinu á laugardag skrifaði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar sem situr í fulltrúaráði lífeyrissjóðsins Gildis að hún myndi aldrei una við það að eftirlaunasjóður yrði notaður til að niðurgreiða taprekstur stórfyrirtækisins Icelandair.  Ásgeir Brynjar segir mikilvægt að gera skýran greinarmun á hlutverkum,  stjórnir lífeyrissjóðanna verði að taka sínar ákvarðanir. 

Áhættumatið getur verið misjafnt

Verðið sem lagt er upp með í útboðinu er króna á hlut og það verða einstaklingar til dæmis að skoða mjög ve. Þeir verða kynna sér útboðsgögnin til að mynda sér fjárfestingarskoðun og lesa vandlega. Það geti jafnvel virkað glannalegt að kalla stíft eftir fjárfestingu frá einstaklingum.  Málið geti horft öðruvísi við stórum og áhættusæknum fjárfestum segir Ásgeir Brynjar en hefðbundnum fjárfestum. Icelandair hafi þegar fengið mikla aðstoð frá því opinbera.  Erlendir áhættusjóðir geti séð möguleika í því að kaupa hlut í félagi sem á í vanda vægu verði og selja svo aftur þegar komið er út úr kófinu. Það sé bara þannig sem fjármálamarkaðir virka 

 

 

Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi