Samþykktu þriggja vikna útgöngubann í Ísrael

13.09.2020 - 18:41
epa08665938 Medical team of Maccabi Health Services takes swab samples at a test station in Modi'in near Jerusalem, Israel, 13 September 2020. The rate of morbidity and spread of the coronavirus led to new government restrictions aimed to prevent the spread of the coronavirus and COVID-19 disease outbreak.  EPA-EFE/ABIR SULTAN 
EPIDEMIC & PLAGUE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ísraelska ríkisstjórnin samþykkti í kvöld að loka landinu í þrjár vikur til þess að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. Aðgerðirnar taka gildi næstkomandi föstudag þegar nýárshátíð gyðinga hefst.

Benjamin Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, segist hafa farið að tillögum COVID-ráðs ríkisstjórnarinnar, sem lagði þetta til. Landsmenn mega ekki fara lengra en 500 metra frá heimili sínu og samkomutakmarkanir miðast við 10 manns innandyra en 20 manns utanhúss. 

Yaakov Litzman, heilbrigðisráðherra, sagði af sér í kjölfarið á ákvörðuninni. Hann var mjög á móti þessum aðgerðum sem svipar til útgöngubanns sem var í gildi í fyrstu bylgju faraldursins í vor. 

Netanjahú sagði að sérstakar reglur yrðu gerðar varðandi samkomutakmarkanir á bænastundum. Þá mega matvöruverslanir og apótek vera opin, en annars þurfa öll fyrirtæki, verslanir og veitingahús að loka. 

Kórónuveiran hefur breiðst hratt út í Ísrael að undanförnu. Sólarhringinn áður en COVID-ráðið kom saman fyrir helgi greindust yfir fjögur þúsund smit í landinu. Þau höfðu þá ekki verið fleiri á einum sólarhring hingað til.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi