Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Listin er að móta ný og heilnæmari tengsl við umhverfið

Mynd: Rúnar Snær Reynisson / RÚV

Listin er að móta ný og heilnæmari tengsl við umhverfið

13.09.2020 - 16:34

Höfundar

Um síðustu helgi fór fram sviðslistahátíðin Plöntutíð á höfuðborgarsvæðinu – grasrótarhátíð í báðum merkingum þess orðs. Ekki bara sprettur hún úr senu ungra sviðslistamanna, grasrótinni, heldur tókust öll verkin á við grös, rætur og plöntur á einhvern hátt, þema sem virðist listamönnum sérstaklega hugleikið um þessar mundir.

Náttúran hefur frá upphafi verið vinsælt og mikilvægt viðfangsefni í listinni: landslag, kyrralíf, og dýr - bæði villibráð og húsdýr – náttúruparadísin Eden, dramatísk fjalllendi, blörraðar vatnaliljur. Á undanförnum árum virðist þó ákveðinn snúningur, eða að minnsta kosti tilraun til snúnings, hafa verið að eiga sér stað í nálgun listamanna á náttúruna. Frekar en að dást að náttúrunni, horfa á hana utan frá, ramma inn og setja á stall, þá eru það spurningar um tengsl mannsins við umhverfið sem eru að verða stöðugt meira áberandi í listaverkum 21. aldarinnar. Vangaveltur um eðli þeirra tengsla sem við sem einstaklingar og tegund myndum við náttúruna, og svo tilraunir til að mynda nýjar tengingar við plöntur, dýr, sveppi, örverur – og já, auðvitað vistkerfið allt.

Spurningarnar eru sprottnar úr knýjandi áhyggjum af hlýnun jarðar og breytingum á loftslaginu. Og undirliggjandi forsendan er yfirleitt sú að hingað til hafi manneskjan nálgast umhverfi sitt fyrst fremst með nýtingarsjónarmið í huga, með það að markmiði að hagnýta náttúruna og alla jörðina til að þjóna þörfum sínum. 

Þetta er ekki glæný pæling. En eftir því sem loftslagsbreytingar verða augljósari – og áhrif þeirra og ástæður blasa betur við – því útbreiddari og háværari verður gagnrýnin á hagnýtingarhyggjuna. Og greiningin nær dýpra. Nýtingarhyggjan byggist á djúpstæðum mannmiðjuhugmyndum sem hafa mótað alla okkar vestrænu hugmyndasögu. Þetta er sú trú og afstaða að manneskjan sé miðja alheimsins, kóróna sköpunarverksins og geti eða hafi jafnvel trúarlega skyldu að nýta umhverfið sér til framdráttar. Náttúruna skal nýta til að lifa af eða til yndisauka. Að öðru leyti lítum við framhjá náttúrunni, þjáumst af því sem kallað hefur verið plöntublinda.

Ef við drögum þetta saman. Mannmiðjuhugmyndin gerir það að verkum að við álítum okkar mannfólkið standa fyrir utan og ofan við náttúruna, og tengjumst svo umhverfinu fyrst og fremst með nýtingu í huga. En ef hagnýtingarhyggjan hefur leitt til yfirstandandi hamfarahlýnunar, þá er ljóst – í huga þessara listamanna að minnsta kosti – að við þurfum að reyna að grafa undan mannmiðjuþankaganginum og reyna að skapa ný tengsl við umhverfið, tengsl sem byggja á virðingu og jafnréttisgrundvelli.

Hvernig skynjar baktería heiminn?

Þessi snúningstilraun er auðvitað ekki bara bundinn við listina. Heimspekihreyfingar á borð við hlutmiðaða verufræði hafa einsett sér að grafa undan þeirri nálgun að líta á sjónarhorn mannsins á veröldina sem æðra en annarra vera. Mannleg skynjun og skilningur á heiminum er bara ein tegund af samskiptum veru og heims, og þó að samskipti ólíkra vera við umhverfi sitt séu vissulega gríðarlega ólík, þá er ekkert sem segir að mannleg skynjun á heiminum sé betri en hvað annað.

Það er bara hroki einnar ófullkominnar lífveru á plánetunni Jörð að halda slíku fram. Þessar hlutmiðuðu heimspekikenningar reyna að rifa niður allt stigveldi ólíkrar skynjunar. Það hvernig leðurblaka upplifir og bregst við heiminum, eða hvernig planta á í gagnvirkum samskiptum við umhverfi sitt, eða sveppur eða baktería, jafnvel líflaus steinvala eða vasaljós tengist heiminum í kringum sig er ekki óæðra, og tengsl þess við heiminn ekki óæðri en þau samskipti sem maðurinn á í við umhverfi sitt.

Plöntugerving mannsins

Listamenn reyna að tjá þennan nýja þankagang með ýmsum leiðum. Ein er að reyna að átta sig á því hvernig aðrar verur skynja heiminn, setja okkur í spor dýra eða plantna, 

Það má kannski segja að þetta sé ákveðinn snúningur á manngervingunnni sem við þekkjum svo vel úr poppmenningunni. Hugsið bara um nánast allar disney-myndir  - þar sem dýrum, plöntum eða öðrum fyrirbærum eru gefnir mannlegir eiginleikar - líkamlegir eiginleikar jafnt sem tungumál og persónuleiki -  þessar verur eru manngerðar til að við eigum auðveldara með að tengjast þeim og finna til samkenndar. Það sem við sjáum í list núna er frekar andstæðan, þar sem eiginleikum annarra vera er varpað á manninn til að við sýna líkindi okkar með þessum nágrönnum okkar - til að skapa samkennd á forsendum ómennskra vera. Dýragerving, Sveppagerving, Plöntugerving mannsins. 

Björk Guðmundsdóttir er einn af frumköðlum þessarar nálgunar í meginstraumnum, til dæmis í Biophiliu-verkefni sínu árið 2011. Síðan þá hafa tilraunin til að skilja, setja sig í spor annarra tegunda lífvera, orðið sífellt áberandi um allt listalífið. Hvort sem það Booker-verðlaunabók Han Kang frá 2016, Grænmetisætan, þar sem aðalpersónan breytist smám saman í plöntu, eða verkefni breska hönnuðarins Thomas Thwaites sem lifði meðal geita í nokkra daga árið 2016 útbúinn sérstökum geita-gervifótum. Raunar þegar ég hugsa um það hefur tilraunakennd hönnun, lífhönnun og spekúlatíf hönnun  verið áberandi í þessari nýju hreyfingu á undanförnum árum, bæði erlendis og hér heima, innan listaháskólans.

Plöntugerving mannsins er grunnþema Mannyrkjustöðvar Reykjavíkur sem hefur staðið fyrir mannyrkjustöð í Hljómskálagarðinum í sumar og var einnig hluti af Plöntutíð um helgina. Með húmorískri nálgun hefur Mannyrkjustöðin reynt að hjálpa fólki að tengjast sinni innri plöntu. Í Hljómskálagarði má finna fjórar æfingastöðvar: Rótun, vökvun, sólun og umpottun. Þar hringir maður í sjálfvirkan símsvara og fær leiðsögn um stöðvarnar. Þau hafa einnig unnið persónuleikapróf sem eiga að gefa fólki hugmynd um með hvaða plöntutegund það á að samsama sér með – sem er svo nauðsynlegt til að hugsa um sig á réttan hátt.

Upp á slíkt persónuleikapróf var boðið upp á í Ásmundarsal í ágúst og kallaðist þar á við smáspekiverkefni Minisophy sem hélt úti sýningu á sama tíma í húsinu. Í myndmáli þeirrar sýningar var einmitt leikið með samlíkingu manns og blóma, og í smáspekilegum vangaveltum hvatt til þess að mannfólk temdi sér svokallaða plöntuhugsun, lærði af visku plöntunnar til að lifa heilnæmæri tilveru.

Trans-húmanískar tækniverur

Þessi nýja list snýst ekki einungis um að sýna fram á líkindi manns og annarra lífvera.  Þegar við veltum fyrir okkur sambandi manns og umhverfis blasir við að við eigum nú þegar í flóknum tengslum og gagnvirkum samskiptum við ótal aðrar verur í kringum okkur, lífrænar og vélrænar. Samlífi og flókin tengsl ólíkra vera og hluta gera það svo að verkum að mörk einstaklingsins verða óljós. Er ég bara einn eða er ég margar verur? Örveruflóran í þörmunum jafnt sem gangráðurinn í hjartanu varpa ljósi á að mannfólk er nú þegar bæði flókið vistkerfi og líf-tæknilegt samlífi. Hugmyndir um cyborg og heimspeki Donnu Haraway eru vinsæll kenningarammi til að vinna slíkar rannsóknir út frá. “Við þurfum að vera óhrædd við að enduruppgötva okkur sjálf sem nýjar trans-húmanískar tækni-lífverur til að tengjast heiminum á heilbrigðari hátt.”

Tengjast. Það er þetta orð sem kemur alltaf upp aftur. Spurningin um tenginguna. Í listinni reynir fólk að endur-tengjast umhverfinu á annan hátt en við höfum gert – spyrja: hvernig er hægt að bíta odd af manneskjulegu oflæti sínu, virða tilveru annarra vera og skapa ný og heilnæmari tengsl við þær.

Margir hafa litið aftur til eldri samfélagsgerða og velt fyrir sér náttúruskynjun og andlegum tengslum fornra samfélaga við náttúrufyrirbæri, þar sem andar og kraftar eru skynjaðir í náttúrunni. Rómantisering á eldri samfélagsháttum ekki síst veiðimanna- og safnara hafa komist inn í meginstrauminn að undanförnu - ætli þekktasta dæmið sé ekki metsölubókin Sapiens, sem teiknar landbúnaðarbyltinguna upp sem mistök eða blekkingu.  En flestir átta sig á að algjör viðsnúningur til fyrri samfélagshátta er ómögulegur og því sé nauðsynlegt að skapa ný tengsl. Heimspekingurinn Timothy Morton hefur til dæmis kallað eftir pólitískri samstöðu með þeim sem hann kallar ó-mannlegt fólk. 

Tilvistarlegar þarfir landnámshænunnar

Tilraunir með annars konar tengsl voru annað viðfangsefni á Plöntutíð. Ég náði reyndar ekki að sjá verkið Moss and me, en samkvæmt lýsingu veltir það fyrir sér mögulegu ástarsambandi höfundarins við mosagróður. Verkefnið er útskriftarverkefni úr mastersnámi í sviðslistum við Listaháskólann, en á þeirri sömu útskriftarhátið í ágúst var einnig verkið Practicing Love þar sem sviðshöfundurinn reyndi að vinna sig út úr eigin mannlegu tilfinningaflækjum með því að rækta vinasamband sitt við hænuna Pinu. Aðeins með því að rannsaka eðli og eiginleika landnámshænunnar og reyna að skilja skynjun hennar væri hægt að átta sig á tilvistarlegum þörfum hennar, og rækta heilnæmt vinasamband. Þetta sviðsverk var því verkleg æfing í nýstárlegri tengslamyndun þvert á tegundir.

Á Plöntutíð voru gestir upplifunarverskins Brum svo hvattir til að tengjast trjám og gróðri í Heiðmörk, þeir voru leiddir um skógræktarsvæðið og með því að fylgja ýmsum leiðbeiningum upplifðu þeir gróðurinn á nýja vegu.

Í verkinu Plantasía sem fór fram í bakgarði á Seljavegi var yfirlýst markmið kannski enn róttækara, að gera verk sem væri ekki einungis fyrir mannfólk heldur einnig fyrir plöntur. Form verksins var þannig algjör snúningur á mannmiðjunálguninni. Mannlegir gestir mættu með pottaplöntur af heimili sínu og fór verkið fram í kringum plönturnar. Á meðan gestir heyrðu leikarann og plöntuunnandann Stefán Karl Stefánsson heitinn ræða um innra líf plantna var tónlist leikin fyrir þær af plötunni Mother Earth’s Plantasía eftir Mort Garson, en tónlistin er sérstaklega samin til þess að vera plöntum að skapi. 

Sviðslistahátíðin Plöntutíð talaði þannig beint inn í tíðarandann og er eitt af fjölmörgum dæmum um það hvernig lífríkið er hratt og örugglega að ráðast inn í listalífið.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Hættum að sjá gróðurinn vegna plöntublindu

Tónlist

Tónlist fyrir tunglið

Myndlist

Pottaplöntur og breytt náttúruskynjun

Menningarefni

Þurfum að vera skapandi og bjartsýn