Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hart deilt um Brexit-frumvarp Johnson

13.09.2020 - 01:40
epa08656843 A handout photo made available by the UK Parliament shows British Prime Minister Boris Johnson during Prime Minister's Questions at the House of Commons in London, Britain, 09 September 2020.  EPA-EFE/JESSICA TAYLOR / UK PARLIAMENT HANDOUT MANDATORY CREDIT: UK PARLIAMENT HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - UK PARLIAMENT
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sakar Evrópusambandið um að reyna að slíta Norður-Írland frá Stóra-Bretlandi með banni á matvælaflutningi frá Bretlandi til N-Írlands. Hann segir þessa kröfu sambandsins réttlæta frumvarp ríkisstjórnar hans um að breyta Brexit-samningnum við ESB um útgöngu Breta. 

Samkvæmt samkomulaginu sem þegar er undirritað og samþykkt af breska þinginu er áfram gert ráð fyrir opnum landamærum á milli Írlands og Norður-Írlands. Norður-Írland nýtur þar með sérstöðu innan Stóra-Bretlands, þar sem Írar eru í Evrópusambandinu.

Segir ESB ógna friði í Norður-Írlandi

Þar sem Bretar verða utan tollabandalags ESB frá áramótum verða lagðir tollar á vörur sem fluttar verða þaðan yfir á írsku eyjuna. Johnson skrifar í laugardagsblaði Daily Telegraph að nú komi í ljós að ESB komi jafnvel í veg fyrir flutning matvæla frá Bretlandi yfir til Norður-Írlands. „Satt að segja datt okkur aldrei í hug að ESB ætlaði að nota samning, sem gerður var í góðri trú, til þess að útiloka hluta Stóra-Bretlands, slíta hann frá, eða hóta því að rústa efnahag og friðhelgi yfirráðasvæðis Breta," skrifar Johnson í Telegraph. Segir hann jafnframt að krafa ESB stefni friði og stöðugleika í Norður-Írlandi í hættu.

ESB neitar að bæta Bretlandi á lista ríkja sem fá að flytja matvæli inn í sambandið enn sem komið er. Sambandið óttast að Bretar eigi eftir að gera minni kröfur til matvælaframleiðenda eftir Brexit, og nýta Norður-Írland til að koma matvælum inn á ESB-markaðinn.

Fyrrverandi forsætisráðherrar hvetja þingmenn til að neita

Meðal þeirra sem gagnrýna Johnson eru fyrrverandi forsætisráðherrarnir Tony Blair og John Major. Þeir áttu sinn þátt í að friðarsamningar voru undirritaðir í Norður-Írlandi árið 1998. Þeir segja aðgerðir stjórnvalda ekki vernda friðarsamninginn, sem kenndur er við föstudaginn langa. Þvert á móti stofni stjórnvöld samningnum í hættu. Þá segja þeir algjöra þvælu af Johnson að vera fyrst núna að greina frá vandamálum í samningnum við ESB. Þeir hvetja þingmenn til þess að hafna frumvarpinu.

Grein Johnson birtist degi eftir óreiðukenndan fjarfund hans með þingmönnum Íhaldsflokksins. Þeir eru margir hverjir stórhneykslaðir á því að stjórnvöld ætli mögulega að rifta fjölþjóðasamningi. AFP fréttastofan hefur eftir Robert Neill, gamalgrónum þingmanni Íhaldsflokksins, að hann telji aðgerðir stjórnarinnar eiga eftir að skaða orðspor Breta. Þetta útspil eigi eftir að gera næstu samningaviðræður enn erfiðari.