Börn sem fæðast andvana eftir 22.viku meðgöngu fá kennitölu nái breytingar á lögum um skráningu einstaklinga fram að ganga. Drög að frumvarpi þessa efnis eru nú til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda.
Frumvarpið er lagt fram af samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að beiðni og í samráði við Þjóðskrá Íslands. Þar segir að tíðkast hafi að skrá börn, sem fæðast andvana eftir 22. viku meðgöngu, í svokallaða utangarðsskrá. Lagt er til að þau fái svokallaða kerfiskennitölu, sem er sú tegund kennitölu sem útlendingar geta fengið hér á landi til að geta átt samskipti við opinberar stofnanir.
Í frumvarpsdrögunum segir að nauðsynlegt sé fyrir heilbrigðisvísindi að þessi börn séu skráð en einnig tengist þessi breyting rétti foreldra barna, sem andast eftir 22. viku meðgöngu, til fæðingarorlofs.