Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Vísbendingar um brotalamir í skimunum í mörg ár

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Vísbendingar eru um að mistök hafi verið gerð við greiningu krabbameinssýna hjá Krabbameinsfélaginu í mörg ár. Þetta segir Sævar Þór Jónsson, lögmaður Hann hefur fengið um 20 fyrirspurnir vegna hugsanlegra rangra niðurstaðna úr leghálsskimunum og er með fimm mál til meðferðar. Tveimur málum verður vísað til Landlæknis til skoðunar á næstu dögum. Eitt þeirra varðar konu sem fór í krabbameinsskimun 2013 sem gaf tilefni til nánari skoðunar sem ekki var gerð. Konan er nú látin.

Krabbameinsfélagið endurskoðar nú sýni frá þúsundum kvenna sem fóru í leghálsskimun árið 2018 eftir að í ljós kom að  kona, sem hafði farið í leghálsskimun það ár og fengið þá niðurstöðu að ekkert væri athugavert, greindist með leghálskrabbamein.

Sævar segir að svo virðist sem málið nái til lengra tímabils, jafnvel mörg ár aftur í tímann. Hann hefur nú fimm mál til meðferðar.

„Allt í allt eru þetta fimm mál og við höfum ákveðið að vísa tveimur málum til landlæknis til skoðunar og frekari rannsóknar. Eitt málið tel ég vera mjög alvarlegt að því leytinu til að þar er sýnataka framkvæmd sem gefur fullt tilefni til frekari athugunar en því var ekki fylgt eftir. Mínir umbjóðendur vilja meina að það hafi orðið til þess að viðkomandi veiktist alvarlega og lést stuttu síðar,“ segir Sævar.

Konan fór í skimun árið 2013 og lést 2017. Ekki hefur áður verið fjallað um mál hennar í fjölmiðlum og Sævar segir engar skýringar hafa fengist á því hvers vegna niðurstöðum sýnatökunnar var ekki fylgt eftir.  

Hitt málið sem Sævar hyggst vísa til landlæknis varðar konu sem fór í sýnatöku 2016 og er núna látin. Hann segir að ekki hafi verið leitað skýringa hjá Krabbameinsfélaginu vegna þessara mála og það sé að ósk umbjóðenda hans sem hafi óskað eftir því að málunum yrði vísað til landlæknis.

„Við teljum að þetta sé þess eðlis að við viljum vísa því til landlæknis, þar sem við teljum að Landlæknir sé kominn núna með þessi mál og hefur talað fyrir því að fá óháða aðila til að kanna málið.“

Sævar hefur fengið um 20 fyrirspurnir vegna mála sem tengjast skimunum hjá Krabbameinsfélaginu og áðurnefndum tveimur málum verður vísað til landlæknis í næstu viku. Hann segir að konurnar sem tengist málunum sem honum hafi borist séu frá tvítugu upp í fertugt. 

„Það er auðvitað mjög sorglegt að vita til þess að konur i blóma lífsins hafi fallið frá, hugsanlega vegna mistaka. Af þessum fimm málum eru þrjár konur látnar. Ein er alvarlega veik og önnur er í meðferð.“

Sævar segir þessi mál benda til þess að brotalamir hafi verið í skimunum Krabbameinsfélagsins í mörg ár.

„Ég hef grun um og það auðvitað er hryllilegt að hugsa til þess að þetta gæti átt við mun eldri tímabil en hér hafa verið til umfjöllunar. Og þetta mál gefur vísbendingar um að svo sé. Að sú brotalöm sem við höfum gagnrýnt í þessu máli, nái yfir mun lengri tíma.“