Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Talið óhætt að halda áfram rannsóknum á bóluefni

epa08656723 (FILE) - A general view of the AstraZeneca headquarters in Sydney, Australia, 19 August 2020 (reissued 09 September 2020). Biopharmaceutical company AstraZeneca has halted the final phase of developing a vaccine against the coronavirus SARS-CoV-2 due to severe side effects in one of the test persons.  EPA-EFE/DAN HIMBRECHTS AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Lyfjaframleiðandinn AstraZenica hefur fengið leyfi til þess að halda áfram tilraunum sínum með bóluefni gegn COVID-19. Fyrirtækið vinnur í samstarfi við Oxford-háskóla, en bóluefnið var komið að lokastigum prófana.

AstraZenica tilkynnti það í byrjun vikunnar að frekari tilraunum með bóluefnið hefði verið frestað vegna óútskýrðra veikinda eins sjálfboðaliðanna. Óháð nefnd vísindamanna var fengin til að fara yfir gögn rannsóknarinnar.

Í yfirlýsingu frá AstraZenica í dag segir að breska lyfjaeftirlitsstofnunin (MHRA) hafi gefið fyrirtækinu grænt ljós á að hefja tilraunir með bóluefnið að nýju.

„Nefndin hefur lokið rannsókn sinni og það er mat hennar að óhætt sé að halda áfram tilraunum með bóluefnið,“ segir í yfirlýsingunni þar sem það er ítrekað að AstraZenica haldi áfram að vinna með heilbrigðisyfirvöldum í allan heim í von um að geta framleitt bóluefni fyrir heimsbyggðina.

Átta önnur fyrirtæki vinna að þróun bóluefnis, en tilraunir AstraZeneca eru komnar hvað lengst. Fram kom í fréttum í lok ágúst að framkvæmdastjórn ESB hefði gert samning við  AstraZeneca um kaup á bóluefni og að sænsk stjórnvöld myndu hafa milligöngu um sölu á bóluefni til Íslands og Noregs.