Sjúkraflutningamenn tóku á móti barni í Grafarvogi

Mynd með færslu
 Mynd: Unsplash
Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu sinnti 111 sjúkraflutningum síðasta sólarhringinn. 26 þeirra voru forgangsverkefni og einn flutningur var vegna COVID-19.

Í færslu á Facebook-síðu slökkviliðsins kemur fram að stundum séu verkefnin gleðileg, því í nótt var sjúkrabíll kallaður til vegna barns sem var að koma í heiminn. Móðirin er utan af landi en kom til Reykjavíkur til þess að eiga barnið, en þegar kallið kom gekk það hratt fyrir sig. Ekki gafst tími til að fara á fæðingardeildina og fæddist drengur á fimmtu hæð í húsi í Grafarvogi. 

Samkvæmt varðstjóra hjá slökkviliðinu heilsast bæði móður og barni vel.

Dælubílar slökkviliðsins voru fimm sinnum kallaðir út síðasta sólarhringinn, en ekki var um stórútköll að ræða. Slökkva þurfti í bíl í austurborginni í nótt, en í dagbók lögreglu kom fram að tveir 18 ára drengir hefðu verið vistaðir í fangageymslu vegna gruns um íkveikju.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi