Seldi áfengi úr bílnum sínum meðan barnið var þar laust

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af konu á tólfta tímanum í gærkvöld þar sem barnið hennar var laust í bílnum. Við nánari athugun kom í ljós mikið magn áfengis í bílnum og viðurkenndi konan ólöglega sölu áfengis.

Samkvæmt dagbók lögreglu var barnið falið nánum aðstandanda og barnaverndarnefnd gert viðvart, en konunni var sleppt að lokinni skýrslutöku.

Skömmu síðar var ökumaður stöðvaður vegna umferðarlagabrots í miðbænum, en sá reyndi að villa á sér heimildir og neitaði alfarið að segja nokkur deili á sér. Hann var vistaður í fangageymslu.

Á þriðja tímanum voru tveir 18 ára drengir handteknir vegna gruns um íkveikju í bíl og þjófnað úr bílum í austurbænum. Þeir voru vistaðir í fangageymslu.

Klukkan fjögur í nótt var svo tilkynnt um að innbrot stæði yfir í heimahúsi í austurbænum. Innbrotsþjófurinn var handtekinn á hlaupum skömmu síðar og grunaður um önnur innbrot í hverfinu. 

Samkvæmt dagbók lögreglu voru svo tvær konur handteknar í heimahúsum fyrir heimilisofbeldi og vistaðar í fangageymslu.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi