Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Meta skaðabætur vegna Krabbameinsfélagsins

Úr umfjöllun Kveiks um krabbameinsskimun.
 Mynd: Kveikur - RÚV
Mál konu, sem fékk þær niðurstöður úr leghálsskimun árið 2018 að ekkert væri athugavert, en greindist síðar með krabbamein er nú til meðferðar hjá tryggingafélagi Krabbameinsfélagsins þar sem mat verður lagt á hugsanlegar skaðabætur.

Sævar Þór Jónsson lögmaður konunnar og nokkurra annarra kvenna sem telja sig hafa fengið ranga niðurstöðu úr skimunum segir að óyggjandi sé að mistök hafi átt sér stað hjá Krabbameinsfélaginu

„Það hefur  verið viðurkennt af hendi Krabbameinsfélagsins að þar hafi átt sér stað mistök. Og þar af leiðandi er þetta borðleggjandi. Við erum búin að setja okkur í samband við tryggingafélag Krabbameinsfélagsins og það er verið að vinna það mál í samstarfi við Krabbameinsfélagið og tryggingafélag þess.“

Sævar segir að umræða um að konur veigri sér við að fara í krabbameinsskimanir eftir að málið kom upp hafi valdið áhyggjum hjá umbjóðanda sínum. Markmið hennar hafi verið að benda á brotalamir í kerfinu og mikilvægt sé að konur haldi áfram að fara í skimanir.

„Það er verið að benda á að það þurfi að vanda til verka og tryggja það að þetta öryggisnet virki. Það er það sem henni hefur brugðið svolítið við þau ummæli sem hún hefur heyrt í samfélaginu. En hún leggur ríka áherslu á að konur láti sinna þessu eftirliti, markmiðið er að tryggja að þetta eftirlit virki.“

Fram hefur komið í fréttum RÚV að Sævar hyggist vísa málum tveggja kvenna, sem báðar eru látnar af völdum krabbameins, til rannsóknar hjá Embætti landlæknis. Hann segir ákvörðun um bætur í þeim málum og öðrum sem hann hefur til meðferðar og tengjast skimunum Krabbameinsfélagsins, ekki liggja fyrir. Of snemmt sé að segja til um það.