Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Friðarviðræður hafnar í Doha

12.09.2020 - 07:49
Mynd með færslu
 Mynd: AP
Friðarviðræður afganskra stjórnvalda og Talibana hófust í Doha í Katar í morgun. Abdullah Abdullah, aðalsamningamaður stjórnvalda í Afganistan, opnaði fundinn á því að þakka Talibönum fyrir sýndan friðarvilja. Hann sagðist bjartsýnn á að þessi dagur eigi eftir að vera lengi í minnum þjóðarinnar hafður sem sá dagur sem endi var bundinn á stríð og þjáningar hennar.

Hann óskaði þess að Talibanar samþykktu mannúðlegt vopnahlé hið fyrsta. 
Mullah Abdul Ghani Baradar, einn stofnenda Talibana og samningamaður þeirra, ítrekaði kröfu hreyfingarinnar um að koma á íslömsku kerfi í Afganistan. Hann bað alla samningsaðila um að hafa íslam til grundvallar í viðræðunum, og ekki fórna trúnni í þágu eigin hagsmuna.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, var viðstaddur upphaf fundarins. Hann bað Afgani og Talibana um að grípa tækifærið og tryggja komandi kynslóðum í Afganistan frið. Hindranirnar eigi eflaust eftir að verða margar í viðræðum næstu daga, viku og mánaða. Þá verði samningsaðilar að muna að þeir séu ekki einungis að miðla málum fyrir núverandi íbúa Afganistans, heldur komandi kynslóðir einnig.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV