Földu heimagerða fallbyssu fyrir yfirvöldum

Mynd: Úr einkasafni / Ingi Þór Invgasvon

Földu heimagerða fallbyssu fyrir yfirvöldum

12.09.2020 - 09:36

Höfundar

„Strax um fermingaraldur vorum við tvíburarnir farnir að smíða okkur eigin fallbyssur og hér úti stendur nú heilmikil fallbyssa sem var lokaverkefnið hjá okkur í fallbyssusmíðinni,“ segir Ingi Þór Yngvason, sem segist alla tíð hafa haft áhuga á byssum og skotfærum. Hann var einn þeirra sem tók þátt í að sprengja Miðkvíslarstíflu fyrir 50 árum.

Ingi Þór Yngvason fæddist á Akranesi, þaðan sem móðir hans er ættuð, og ólst upp á Skútustöðum við Mývatn. Vatnið hefur alltaf leikið stórt hlutverk í lífi hans og síðustu 44 árin hefur hann helgað sig lífríkinu í og við Mývatn. Hann lýsir sér sem vörslumanni fuglalífs við Mývatn en hann telur að fuglalíf eigi alls staðar í vök að verjast. Veiðiskapur hefur einkennt starf hans og þar kemur ævilangur áhugi hans á byssum, skotfærum og dýnamíti sér vel. Rætt var við Inga Þór í útvarpsþættinum Sögum af landi. 

Slóst við minkinn með dýnamíti

Ingi Þór stóð vörð um fuglalífið með því að veiða ref og mink á svæðinu, auk þess að halda vargfugli í skefjum. Við minkaveiðarnar nýtti hann dýnamítið óspart og segir að það hafi verið hans helsta vopn til að slást við minkinn. Hann lýsir umhverfinu í kringum vatnið sem gósenlandi fyrir mink „Þetta hraun sem er hér alls staðar, jafnvel upphitaðar holur og silungslón. Þannig að þetta er gósenland fyrir mink,“ segir Ingi Þór, sem reiddi sig frekar á sprengiefni við veiðarnar en minkahunda sem hann segir að hafi lengi verið taldir helsta úrræðið við að veiða mink. „En ég var með minkahunda hér í yfir 20 ár og á þeim tíma sannfærðist ég um að minkahundar duga ekkert í svona slag í þessu landslagi sem er hér.“

Ingi Þór notaði dýnamítið hinsvegar óspart en þurfti að hætta þegar tekin var stjórnvaldsákvörðun um að banna slíkt. „Þá fór ég að veiða minkinn í gildrur og einbeitti mér þá að vetrartímanum sem skilaði ótrúlegum árangri og ég sannfærði mig um að það væri eina rétta leiðin ti lað halda mink í skefjum og á svona svæði eins og hér.“

Áhuginn á dýnamíti kom sér vel þegar sprengja átti Miðkvíslarstíflu

Ingi Þór var einn af gerendunum þegar heimamenn sprengdu stífluna við Miðkvísl. Stíflan var sterkbyggð og fljótt sáu menn að ekkert myndi vinna á henni nema sprengiefni. Vitneskja var um að sjálfur virkjunaraðilinn, Laxárvirkjun, geymdi dýnamít á svæðinu sem notað var til þess að sprengja krapastíflur í Laxá. „Nú af því að við bræður vorum sérstakir áhugamenn um sprengiefni vorum við búnir að hafa það í huga lengi að fara að leita að þessu dýnamíti, sem komst þó aldrei í verk fyrr en þarna þegar menn stóðu frammi fyrir því að það vantaði dýnamít sárlega til að vinna á Miðkvíslarstíflu,“ rifjar Ingi þór upp. Hann fór því til félaga síns sem býr við Laxá og spurði hvort hann vissi nokkuð hvar dýnamít væri að finna. „Þá vissi hann það. Þannig að við tveir fórum og sóttum dýnamítið og komum með það ansi hróðugir að Miðkvíslarstíflu.“

Markmiðið var að safna í 21 fallbyssuskot eins og hjá bresku konungsfölskyldunni

Þeir tvíburabræður höfðu frá fermingaraldri dundað sér við að smíða sér fallbyssu. Úr varð hin glæsilegasta fallbyssa sem hægt var að skjóta úr og fallbyssuævintýrið hófst fyrir alvöru. „Við vorum hér hópur af strákum sem unnum að byggingu Kröfluvirkjunar. Á hverju kvöldi var mætt í bílskúrinn og búið til heimatilbúið púður og steyptar kúlur í fallbyssur. Meiningin var að safna í 21 fallbyssuskot, eins og tíðkast nú víst hjá bresku konungsfjölskyldunni þegar mikil hátíðahöld eru.“

Mynd með færslu
 Mynd: Úlla Árdal
Fallbyssan var notuð við hátíðleg tækifæri.

Markmiðið náðist eitt haustið. „Og klukkan átta að morgni byrjuðum við að skjóta hér út yfir vatn. Þetta var víst réttardagurinn hjá þeim í Reykjahlíðarrétt og þeir heyrðu skothvellina dynja austur fyrir Námafjall,“ rifjar Ingi Þór upp léttur í bragði, og segir að eftir þetta hafi fallbyssan einungis verið notuð við einstaka hátíðlegt tækifæri.

Þeystu með fallbyssuna yfir ísilagt Mývatn

Ingi Þór rifjar upp að fallbyssutíminn hafi verið skemmtilegur en þegar ævintýrið stóð sem hæst hafi yfirvöld hótað að gera byssuna upptæka. Hann ákvað því að flýja með hana út í Mikley, stærstu eyju í Mývatni. Þá var komið undir vor og þeir lögðu af stað með byssuna út á ísilagt vatnið. „Við vorum komnir hér út á mitt Mikleyjarsund, þegar annað hjólið hvein niður um ísinn. Þá var í ofboði farið heim og náð í tjakk og einhverjar spýtur og tókst að lyfta hjólinu upp úr gatinu,“ rifjar hann upp. Síðan voru vélsléðar bundnir fyrir og þeyst með byssuna á fullri ferð út í Mikley. „Þar stóð hún í líklega 30 ár,“ sagði Ingi Þór. 

Úlla Árdal ræddi við Inga Þór Yngvason í Sögum af landi á Rás 1. Viðtalið í heild sinni má finna í spilaranum hér að ofan.  

Tengdar fréttir

Skútustaðahreppur

Sprengingin við Miðkvísl: nauðvörn samfélagsins

Kvikmyndir

„Bara grjótregnið og alvöru sprenging“

Skútustaðahreppur

Mývargur veltur inn úr gluggakistum í Mývatnssveit

Skútustaðahreppur

Skúföndum fækkar mikið í Mývatnssveit