Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Fagnaðarefni að rannsóknir á bóluefni geti haldi áfram

12.09.2020 - 17:17
Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson / RÚV
Sérfræðingur í smitsjúkdómum fagnar því að lyfjaframleiðandinn AstraZenica fái að halda áfram tilraunum með bóluefni við COVID-19. Viðbúið sé að fleiri rannsóknir lendi í viðlíka töfum.

AstraZeneca tilkynnti í byrjun vikunnar að tilraunum með bóluefni hefði verið frestað vegna óútskýrðra veikinda eins sjálfboðaliða í rannsókninni. Óháð nefnd vísindamanna var fengin til að fara yfir gögn og fyrirtækið hefur nú fengið leyfi til að hefja tilraunir að nýju.

„Þetta er í raun og veru styttra hlé en í raun og veru margir bjuggust við. Og það er auðvitað bara mikið fagnaðarefni að ekki hafi verið talin ástæða til að eyði meiri tíma í yfirferð á þessu eina tilviki. Eina spurningin sem er kannski ósvarað er hvaða áhrif, ef einhver, þetta hefur á framgang þessarar rannsóknar í öðrum heimsálfum - eins og í Suður-Ameríku og Indlandi. Það hefur ekki komið fram hvort þetta muni eitthvað tefja framkvæmdina þar. En vonandi er svo ekki,“ segir Magnús Gottfreðsson, læknir og sérfræðingur í smitsjúkdómum. 

Viðbúið að fleiri rannsóknir verði stöðvaðar

Fram kom í fréttum í lok ágúst að framkvæmdastjórn ESB hefði gert samning við  AstraZeneca um kaup á bóluefni sem meðal annars nær til Íslands. Hér fylgjast sérfræðingar grannt með þróuninni.

„Ég held að allir sem eru að starfa á þessu sviði fylgist mjög grannt með rannsóknum á bóluefnaþróun. Það er alveg viðbúið að eftir því sem þessum rannsóknum vindur fram, og sérstaklega þessum mjög svo fjölmennu rannsóknum þar sem um er að ræða tugi þúsunda þátttakenda, að sumar af þeim rannsóknum sem nú eru í  gangi munu líka verða stöðvaðar tímabundið til að fara yfir atvik eins og þetta,“ segir Magnús.

Það sem geti orsakað slíkt séu til að mynda utanaðkomandi aðstæður sem geta haft áhrif á heilsu þátttakenda en séu ótengdar rannsókninni. En til að velta við hverjum steini þá eru reglurnar þannig að skoða þarf hvert tilvik fyrir sig. 

„Útilokað“ að um markaðstaktík sé að ræða

Átta önnur fyrirtæki vinna að þróun bóluefnis, en tilraunir AstraZeneca eru komnar hvað lengst. Samkeppnin er því mikil, en á aðeins fjórum dögum hefur fyrirtækið farið úr því að fresta tilraunum í það að fá grænt ljós til að halda áfram, og ítrekar að unnið sé náið með yfirvöldum. Gæti verið einhvers konar markaðstaktík þarna að baki?

„Nei, ég held að það sé útilokað. Það eru ákveðnar reglur sem eru fyrirfram skilgreindar sem eiga að stjórna því hvort að rannsóknir eru stöðvaðar tímabundið eða tekið hlé.

Í þeim reglum felst meðal annars það að ef einhver þátttakandi leggst inn á sjúkrahús eða hann er með undirliggjandi sjúkdóm sem versnar mjög við gjöf þessa tilraunalyfs sem verið er að prófa, eða deyr, að þá þarf sjálfkrafa að staldra við og skoða gögn þess máls. Og það var bara það sem gerðist í þessu tilviki,“ segir Magnús Gottfreðsson, sérfræðingur í smitsjúkdómum.