Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Er kappið of mikið í bóluefnakapphlaupinu?

12.09.2020 - 08:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Heimsmet í bóluefnaframleiðslu er handan við hornið en þúsundir vísindamanna keppast nú um að verða fyrstir til að koma á markað bóluefni við Covid-19. Það er kraftaverki næst því þróun bóluefna tekur jafnan ár og jafnvel áratugi. Og það er mikið undir, líf og heilsa milljóna, heilu efnahagskerfin og margir stærstu lyfjarisar heims keppast um að verða fyrstir. En er kappið og samkeppnin of mikil?

Kórónuveirufaraldurinn er ekki á förum en þróun annarrar bylgju hans hefur nær alls staðar verið mun betri en í þeirri fyrstu í vetur og vor. Núna eru rétt rúmlega sjö milljónir virkra smita á heimsvísu, og af þeim eru aðeins um sextíu þúsund sem eru alvarlega veik eða á sjúkrahúsi. Það er innan við eitt prósent þeirra sem veikjast en það var nær fimm prósentum í apríl og maí. Alls hafa um 28 milljónir greinst og yfir 900 þúsund dáið, en það er mjög hátt hlutfall, um fjögur prósent þeirra sem veikjast. Núna veikist innan við eitt prósent alvarlega og á meðan svo er verður faraldurinn viðráðanlegri, og hægt að nýta bóluefni fyrst meðal heilbrigðisstarfsfólks og jafnvel þeirra sem eldri eru eða með undirliggjandi sjúkdóma. Því fylgir engu að síður mikil áhætta, og þá gildir að rannsaka bóluefnin og áhrif þeirra gaumgæfilega, en það er mikill þrýstingur, sérstaklega frá stjórnmálamönnum, á að bóluefni komi á markað á allra næstu mánuðum.

Líkurnar á að þrautreynt bóluefni verði tilbúið fyrir áramót eru litlar - en að það sé yfir höfuð til umræðu er í raun ótrúlegt ef litið er til sögu bóluefnaþróunar. Það tókst á rúmum fjórum árum að finna bóluefni við hettusótt, en það er nú gefið flestum landsmönnum við átján mánaða aldur, en bólusetning hér hófst 1989. Þróun bóluefnis hefur ekki tekið skemmri tíma til þessa, en það tók sjö ár að finna bóluefni við mænusótt, níu við mislingum og hlaupabólu alls 34 ár, frá 1954 til 1988, en flest þessara bóluefna urðu til um og upp úr miðri síðustu öld. Síðan hefur tækninni fleygt fram, en þrátt fyrir það er bóluefni við HIV-veirunni enn ófundið, 36 árum eftir að það kom í ljós hvers konar veira það er sem veldur sjúkdómnum.

 

Bandaríkin eru það ríki sem hefur farið hvað verst út úr faraldrinum. Þar hafa flestir dáið vegna sjúkdómsins en þar hefur einnig mestum fjármunum verið varið til að framleiða bóluefni. Peningar leysa mörg vandamál en ekki öll. Mikið af þeim getur þó haft sitt segja. Í byrjun sumars var hleypt af stokkunum operation Warp Speed, verkefni sem átti að tryggja að 300 milljón skammtar af bóluefni yrðu tilbúnir fyrir áramót. Bandaríkjastjórn hefur alls lagt tæpa ellefu milljarða bandaríkjadala til verkefnisins og margir stærstu lyfjarisa heims sótt fjármagn þangað. Þar á meðal eru AstraZeneca, Moderna, JohnsonogJohnson, Pfizer, GlaxoSmithKline og Novavax.

Hjá mörgum þeirra vinna vísindamenn og annað starfsfólk á þreföldum vöktum sjö daga vikunnar að því að þróa bóluefni fyrir áramót, mjög metnaðarfullt markmið sem gæti náðst en það er kannski ekki síst vegna þekkingar á fyrri faröldrum kórónuveiru, SARS í byrjun aldarinnar og MERS árið 2012. Margir lyfjarisanna taka einnig þátt í gegnum Covax, sem er alþjóðlegt samstarfsverkefni um að þróa, framleiða og dreifa bóluefni en að því kemur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, alþjóðlega bólusetningabandalagið GAVI og CEPI, sem var stofnað sérstaklega til að eiga við heimsfaraldur á borð við þennan. 

Mynd með færslu
 Mynd: CEPI
Elen Høeg starfar hjá CEPI í Osló en rekur starfstöðvar einnig í Washington og Lundúnum.

Elen Høeg, einn af stjórnendum CEPI, segir kórónuveirufaraldurinn alþjóðlegt vandamál og því þurfi alþjóðlegt átak til að bregðast við. Covax eigi sér engin fordæmi og markmiðið sé skýrt, að koma bóluefni til sem flestra og það sé því best að sem flest ríki komi að samstarfinu. CEPI var stofnað í Davos í Sviss fyrir þremur árum til að bæta og auka viðbúnað við heimsfaraldri. Á meðal þeirra sem komu því á fót voru Alþjóðaefnahagsráðið og góðgerðasjóðirnir Welcome trust og Gates foundation, sem er góðgerðasjóður Bill og Melindu Gates. Helsta markmið Covax, og þar af leiðandi CEPI, er að tryggja lágtekjulöndum aðstoð og aðgang að bóluefni og koma í veg fyrir verðhækkanir þegar bóluefnið kemur á markað. Á meðal lyfja- og líftæknifyrirtækja sem taka þátt í Covax-verkefninu eru Moderna, Novavax og AstraZeneca, en það síðastnefnda lenti í vandræðum í vikunni. 

epa08654346 Pedestrians walk along the busy shopping area of Oxford Street in London, Britain, 08 September 2020. British Health Secretary Matt Hancock has urged young people to stick to physical distancing rules, due to the the rise in the number of coronavirus cases.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA-EFE - EPA

AstraZeneca gerði hlé á rannsóknum með bóluefnið eftir að þátttakandi í rannsóknum þeirra í Bretlandi veiktist. Flestir litu svo á í byrjun þessarar viku að þrjú bóluefni væru í forystu, eitt þróað af lyfjarisanum Pfizer, annað af AstraZeneca og vísindamönnum við Oxford háskóla í Bretlandi það það þriðja af bandaríska líftæknifyrirtækinu Moderna. Öll þrjú er langt komin með klínískar rannsóknir og margir spáðu því að þau yrðu jafnvel komin með vottun á þessu ári. Það er þó heldur ólíklegt að það takist.

Veikindin ættu ekki að hafa áhrif á Covax

Rannsóknir á ChAdOx1, bóluefni Oxford og AstraZeneca, lofuðu góðu en þær eru gerðar á tugum þúsunda í Bretlandi, Brasilíu, Suður-Afríku og Indlandi. Ástæða þess er sú að fólk af ólíkum uppruna getur brugðist á ólíkan hátt við bóluefninu, og aukaverkanir geta komið fram hjá til dæmis Indverjum en ekki hjá Brasilíumönnum. Það er því mikilvægt að rannsóknarhópurinn sé eins fjölbreyttur og mögulegt er. Óvíst er hversu mikil áhrif veikindin hafa á þróun bóluefnisins en þetta gerist reglulega á lokastigum prófana þegar þúsundir prófa bóluefnið í fyrsta sinn. Elen segir að þetta atvik ætti ekki að hafa mikil áhrif, hvorki á AstraZeneca né Covax. Það liggi ekki enn fyrir hvort viðkomandi fékk bóluefnið eða lyfleysu, en bóluefnarannsóknir fara yfirleitt þannig fram að helmingur þátttakenda fær bóluefni og helmingur lyfleysu og enginn veit hver er í hvaða hópi. Rannsókn á eftir að leiða þetta í ljós en yfirmenn AstraZeneca töldu best að staldra við og rannsaka veikindin. Bóluefnið var á lokastigum prófana og flestir virðast hafa treyst því best. 

Ekki í fyrsta sinn sem veikindi koma upp í rannsókninni

Í fjölmiðlum hefur það yfirleitt verið kallað Oxford-bóluefnið og fékk það mikla umfjöllun vegna tengingarinnar við einn frægasta háskóla heims. Þá er Sarah Gilbert, sem stýrir rannsóknunum, talin ein sú færasta á sínu sviði. Hún segir viðbúið að veikindi komi upp í bóluefnarannsóknum og þau hafi gert það áður í þessari rannsókn. Veikindin sem settu strik í reikninginn voru mænubólga, en orsakir hennar geta verið sýkingar svipaðar Covid-19. Mænubólga getur verið lífshættuleg en helstu einkenni hennar eru slappleiki í vöðvum og doði en að sögn Pascal Soriot, framkvæmdastjóra AstraZeneca, voru veikindin smávægileg og sá sem veiktist, sem var bresk kona, verði útskrifuð fljótlega. Þrátt fyrir veikindin ætti að takast að ljúka vinnunni fyrir áramót og bóluefni AstraZeneca verði tilbúið um eða skömmu eftir áramót.

epa08522191 A person holds a new vaccine during the commencement of coronavirus vaccine trials at the Royal Adelaide Hospital in Adelaide, Australia, 02 July 2020. The first potential coronavirus vaccine developed in the southern hemisphere is set to begin human trials in Adelaide.  EPA-EFE/DAVID MARIUZ AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Alþjóðheilbrigðisstofnunin hefur varað við of miklu kappi í bóluefnakapphlaupinu. Ríki ættu ekki að keppa sín á milli um að verða fyrst til að þróa bóluefni, heldur vinna að því saman.

Ferlið hófst í tilraunaglösum í janúar

Þróun bóluefna er flókið og tímafrekt ferli. Það hófst í tilraunaglösum á rannsóknarstofum strax í janúar og febrúar og því nánast kraftaverk að sum þeirra séu komin jafn langt og raun ber vitni. Leitin hófst mjög fljótlega eftir að kínverskir læknar birtu erfðamengi veirunnar sem var að valda veikindum í Wuhan í Kína. Nú eru vel yfir 200 bóluefni í þróun og rúmlega 30 þeirra eru nú prófuð á fólki og komin mislangt. Kapphlaupið stendur nú sem hæst og erfitt að ráða í hverjir forystusauðirnir eru. Kappið er mikið og forsjáin kannski eftir því. Rússneska bóluefnið Spútnik fimm, og tvö kínversk bóluefni, eru þau einu sem hafa fengið samþykki heilbrigðisyfirvalda en aðeins það rússneska hefur lokið öllum klínískum rannsóknum. Þær voru þó ekki mjög ítarlegar en Rússar stefna að því að prófa það á tugum þúsunda á næstunni. 

Þrýst á vísindamenn að slá af kröfunum

Þrýst hefur verið á vísindamenn að flýta rannsóknum enn frekar og forsvarsmenn stærstu lyfjafyrirtækjanna sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu í vikunni þar sem fram kom að enginn afsláttur yrði gefinn á þeim stöðlum sem tryggðu virkni og öryggi bóluefnanna. Bæði í Rússlandi og Kína eru framleiðendur langt komnir með bóluefni, en þessi tvo ríki auk Bandaríkjanna standa utan Covax-samstarfsins. Þar er því jafnvel enn meira undir í kapphlaupinu, og enn óvíst hverjir fá að njóta góðs af. Thedrenom Ghebreheysus, yfirmaður Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, hefur varað við því sem hann kallar bóluefna-þjóðernishyggju og þeim hugsunarhætti að nú þurfi hvert ríki að hugsa um sig og sína hagsmuni. Elen Hoge tekur undir þetta og segir farsælast að þjóðir heims vinni saman að þessu sameiginlega markmiði, og sem flestir njóti góðs af. 

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Flugfélög búast við því að flutningar bóluefnanna milli landa verði stærstu flutningar sögunnar og samsvari átta þúsund fullum Boeing 747 breiðþotum.

Varað við bóluefna-þjóðernishyggju

Thedros Adhanom Ghebreysus, yfirmaður Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, hefur varað við því sem hann kallar bóluefna-þjóðernishyggju og þeim hugsunarhætti að nú þurfi hvert ríki að hugsa um sig og sína hagsmuni. Elen Hoge tekur undir þetta og segir farsælast að þjóðir heims vinni saman að þessu sameiginlega markmiði, og sem flestir njóti góðs af. Örugg bóluefni séu besta leiðin út úr faraldrinum en það eigi eftir að reynast flókið að koma tuttugu milljörðum skammta til yfir 170 ríkja - og það þarf töluvert mikið til. 

8.000 Boeing 747 þarf til að flytja bóluefnið

Alþjóðasamtök flugfélaga segja að þetta verði stærsti flutningur sögunnar og magnið jafnist á við fullfermi átta þúsund Boeing 747 breiðþota til að koma einum skammti af bóluefni til allra. Elen segir að nú sé verið að kortleggja hvernig þetta verði gert, en mikilvægasta og erfiðasta verkefnið verði að koma bóluefni til þróunarríkjanna, en öll ríki Afríku taka þátt í Covax. Það eigi þó eftir að takast því þetta samstarf eigi sér engin fordæmi. „Það eru aðeins örugg og virk bóluefni sem geta komið okkur aftur í því sem næst eðlilegt ástand og þau eru fljótlega leiðin úr þessum faraldri. Covax er öflugra alþjóðasamstarf en við höfum séð áður og á þeim vettvangi, með þátttöku sem flestra og stuðningi, bæði frá stjórnmálamönnum en einnig fjárstyrkjum, þá eigum við eftir að fá virk og örugg bóluefni innan skamms,“ segir Elen Høeg.

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV