Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Dalai Lama segir lag að bregðast við hnattrænni hlýnun

12.09.2020 - 16:01
epa07485316 Tibetan spiritual leader, the Dalai Lama speaks during a press conference in New Delhi, India, 04 April 2019. According to news reports, Dalai Lama said during a press conference that Tibet is seeking a mutual solution to the tibetan issue with China but China consider him a 'Splittist'. He also praised the New Zealand Prime Minister Jacinda Ardern for her actions during the New Zealand terrorist attack situation which happened recently.  EPA-EFE/STR
 Mynd: EPA
„Nú er tækifæri til að beina sjónum enn frekar að hnattrænni hlýnun,“ eru skilaboð Dalai Lama andlegs leiðtoga Tíbeta til stjórnmálamanna heimsins.

Dalai Lama ávarpaði stafrænan fund sjö þingforseta sem Nancy Pelosi forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings stóð fyrir í dag. Auk hennar hlýddu fulltrúar Bretlands, Kanada, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu og Japans á orð Lamans.

Núverandi Dalai Lama er fæddur 1935 og sagður fjórtánda endurholdgun upprunalega Lamans Avalokiteshvara. Hann er æðsti leiðtogi Lamasiðar sem er ríkjandi gerð Búddatrúar í Tíbet. Hann hefur verið í útlegð frá árinu 1959 en hefur hlotið fjölda alþjóðlegra viðurkenninga fyrir framlag sitt til friðar, þar á meðal Nóbelsverðlaun árið 1989.

AFP fréttastofan segir leiðtoga heimsins undanfarið hafa fundað sjaldnar með Dalai Lama vegna aukins þrýstings frá kínverskum yfirvöldum.

Dalai Lama segir almenningi meira í mun nú en áður að bjarga jörðinni og jafnframt að hlýnunin hefði mest áhrif á þau sem veikust væru fyrir. „Þegar horft er til sögunnar hefur of mikil áhersla verið lögð á mismunandi litarhaft fólks og svo einstaka þjóðir, einstök landsvæði, einstök trúarbrögð,“ segir Dalai Lama. Það séu sjálfselskuleg og sjálfmiðuð viðhorf sem valdi ærnum vanda.

Miklir þurrkar og regn í Afríku og Asíu valda fátæku fólki gríðarlegum vanda og þjáningum segir Dalai Lama. Slíkt ýti enn undir ójafnvægi í efnahagsmálum heimsins; auðugt fólk, segir hann, finnur minna fyrir afleiðingum hnattrænnar hlýnunar.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV