
Dalai Lama segir lag að bregðast við hnattrænni hlýnun
Dalai Lama ávarpaði stafrænan fund sjö þingforseta sem Nancy Pelosi forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings stóð fyrir í dag. Auk hennar hlýddu fulltrúar Bretlands, Kanada, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu og Japans á orð Lamans.
Núverandi Dalai Lama er fæddur 1935 og sagður fjórtánda endurholdgun upprunalega Lamans Avalokiteshvara. Hann er æðsti leiðtogi Lamasiðar sem er ríkjandi gerð Búddatrúar í Tíbet. Hann hefur verið í útlegð frá árinu 1959 en hefur hlotið fjölda alþjóðlegra viðurkenninga fyrir framlag sitt til friðar, þar á meðal Nóbelsverðlaun árið 1989.
AFP fréttastofan segir leiðtoga heimsins undanfarið hafa fundað sjaldnar með Dalai Lama vegna aukins þrýstings frá kínverskum yfirvöldum.
Dalai Lama segir almenningi meira í mun nú en áður að bjarga jörðinni og jafnframt að hlýnunin hefði mest áhrif á þau sem veikust væru fyrir. „Þegar horft er til sögunnar hefur of mikil áhersla verið lögð á mismunandi litarhaft fólks og svo einstaka þjóðir, einstök landsvæði, einstök trúarbrögð,“ segir Dalai Lama. Það séu sjálfselskuleg og sjálfmiðuð viðhorf sem valdi ærnum vanda.
Miklir þurrkar og regn í Afríku og Asíu valda fátæku fólki gríðarlegum vanda og þjáningum segir Dalai Lama. Slíkt ýti enn undir ójafnvægi í efnahagsmálum heimsins; auðugt fólk, segir hann, finnur minna fyrir afleiðingum hnattrænnar hlýnunar.