Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Viðræður að hefjast um frið í Afganistan

11.09.2020 - 16:22
epa08661730 A handout photo made available by Afghanistan State Ministry for Peace shows Afghanistan's Peace Negotiation team pray as they leaves Kabul for the opening ceremony of Intra-Afghan Peace Negotiations that are to be held in Doha, Qatar, at Kabul airport, Afghanistan, 11 September 2020. The United States, Taliban and Afghanistan government delegations officially will start the intra-Afghan negotiations on 12 September 2020.  EPA-EFE/AFGHANISTAN STATE MINISTRY FOR PEACE HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
Afganska sendinefndin baðst fyrir áður en hún hélt til Doha í Katar í dag. Mynd: EPA-EFE - Friðarnefnd afgönsku stjórnar
Friðarviðræður talibana og stjórnvalda í Afganistan hefjast í Katar á morgun. Deilur um fangaskipti töfðu þær um hálft ár. Utanríkisráðherra Bandaríkjanna verður viðstaddur þegar sendinefndir beggja setjast að samningaborðinu.

Viðræðurnar fara fram fyrir tilstuðlan bandarískra stjórnvalda. Donald Trump forseti hefur sett það á oddinn í utanríkisstefnu sinni að hverfa með bandarískt herlið frá Afganistan. Þar hefur það verið síðustu nítján ár í kjölfar hryðjuverkaáraásanna í New York og Washington 11. september 2001.

Fyrr á þessu ári náðu bandarískir samningamenn samkomulagi við talibana um að setjast að samningaborðinu gegn því að Afganar slepptu fimm þúsund föngum úr þeirra liði í skiptum fyrir eitt þúsund stjórnarhermenn sem þeir höfðu í haldi. Nokkur hluti talibanafanganna sat inni fyrir morð á afgönskum og erlendum ríkisborgurum. Frakkar mótmæltu því til dæmis að tveir fangar sem myrtu tvo franska ríkisborgara yrðu látnir lausir. Þeim var eigi að síður sleppt í gær ásamt fjórum til viðbótar, þannig að þá var ekkert til fyrirstöðu að setjast að samningaborðinu.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur þrýst á um að friðarviðræðurnar hefjist. Hann kom síðdegis til Doha, höfuðborgar Katar til að vera viðstaddur þegar þær hefjast formlega við hátíðlega athöfn.